Vesturbyggð: 20 skemmtiferðaskip í sumar

Crystal Endeavor á Patreksfiði í fyrrasumar. Skipið er nýtt og tekur 200 farþega.

Alls koma 20 skemmtiferðaskip til Patreksfjarðar í sumar. Fyrsta skipið kemur 31. maí og er það Silver Moon. Síðasta skipið, Ocean Adventurer, kemur 22. september. Fjórar skipakomur verða í júní, sjö í júlí, 6 í ágúst og tvær í september.

Silver Whisper kemur oftast eða fjórum sinnum. Það getur tekið 382 farþega og 295 eru í áhöfn skipsins. Skipið er smíðað á Ítalíu árið 2001,er 190 metra langt og rúmlega 28.000 tonn að stærð.

Fram kemur í skýrslu um ferðamálastefnu Vesturbyggðar að fyrir covid árið 2019 , hafi tekjur af ferðaþjónustu í Vesturbyggð numið um einum milljarði króna og launagreiðslur verið 324 m.kr. Tekjur af skemmtiferðaskipum munu koma til viðbótar þar sem um nýjan þátt í ferðaþjónustunni er að ræða.

Mikil efnahagsleg áhrif

Í skýrslu Peter Wild sem var unnin fyrir Cruise Iceland og Hafnasamband Íslands og gefin var út í janúar 2019 eru efnahagsleg áhrif af komum skipa til Ísafjarðar umtalsverð og er niðurstaða þeirrar könnunar að áætluð heildareyðsla farþega, áhafna og skipa 9,6 milljónir evra eða ríflega 1,3 milljarðar ISK, þar af er eyðsla farþega áætluð tæplega 8,4 milljónir evra eða ríflega 1,1 milljarðar ISK, áhafnar 802 þús evrur eða 110 milljónir ISK og eyðsla skipa áætluð 467 þúsund evrur eða rúmlega 64 milljónir ISK (gengi 12/9 2019).

Miðað við þessar upplýsingar má ætla að skipakomurnar muni skila umtalsverðum tekjum í sumar.

DEILA