Vegstikur vísa veginn

Starfsmenn þjónustustöðva Vegagerðarinnar eru nú í óða önn að setja upp stikur og í nýju myndbandi er sýnt frá þessari vinnu og rætt við Grétar Einarsson verkstjóra á Selfossi.

„Stikur eru hluti af vegbúnaði sem þarf að vera í lagi, sérstaklega þar sem ekki er vegrið á milli akstursstefna,“ segir Grétar og útskýrir að mikið hafi mætt á öllum vegbúnaði á Hellisheiði, Svínahrauni og Sandskeiði í vetur vegna gríðarlega mikilla snjóa. „Í verstu veðrum, þegar skyggni er vont, kemur fyrir að snjóruðningstæki aki á stikurnar auk þess sem snjórinn sem er verið að moka riður stikunum burt.“

Ekki er hægt að hefjast handa við stikuvinnuna fyrr en frost fer úr jörðu og því er oft æði tómlegt um að litast meðfram vegum landsins í lok vetrar.

Nokkrar vikur tekur að laga allar stikur á svæðinu en fleiri verkefni eru aðkallandi á sama tíma en mikilvægt er að fylla í holur sem geta valdið slysahættu á vegum.

Að endurnýja stikur er krefjandi, sér í lagi á umferðarmiklum vegum. „Helst þurfa að vera þrír við þessa vinnu með varnarbíl á eftir sér,“ segir Grétar sem hvetur vegfarendur til að slá verulega úr hraða ef þeir sjá blikkandi ljós, enda víst að þá sé fólk að störfum á veginum.

Nokkrar áhugaverðar staðreyndir um stikur
  • Rúmlega 300 þúsund stikur, bæði vegstikur og snjóstikur standa við þjóðvegi landsins.
  • Vegstikur vísa veginn, sérstaklega í rökkri og vondum veðrum.
  • Á hverju ári eru framleiddar um 20 þúsund vegstikur og nokkur þúsund snjóstikur
  • Áður fyrr voru vegstikur úr timbri og þurfti að skipta þeim nærri öllum út á hverju ári.
  • Stikur eru endurnýttar eins og kostur er en fara annars í endurvinnslu
  • Hver stika getur enst í allt að tíu ár.
https://youtu.be/Y7UD-btLsc8

DEILA