Stóru S-in: Stjórnsýsla, stefna, skipulag

Það er áberandi nú í aðdraganda kosninga að það sem brennur einna helst á fólki er stjórnsýslan og óskilvirkni hennar. Fólk kallar eftir úrbótum. En hvað getum við gert?

Stjórnsýsla felur í sér alla þá starfsemi sem lýtur að því að framfylgja stefnu stjórnvalda. Stefnan er sett af stjórnvöldum sem síðan kemur henni í framkvæmd og á þeirri leið geta orðið hnökrar, ekki síst ef um flókin mál er að ræða. Þegar verkefnum er ekki forgangsraðað á réttan hátt eða ekki í samræmi við stefnu þá kemur það niður á skilvirkni stjórnsýslunnar. Óskýr stefna þeirra sem fara með völd er líkleg til að leiða af sér óskilvirka stjórnsýslu. 

Mikilvægt er að mönnun sviða og stofnana sveitarfélagsins sé í samræmi við vinnuálag svo ekki safnist upp óeðlilega mörg mál sem tefja fyrir afgreiðslu þeirra. Það er mikilvægt að nýr bæjarstjóri leiði þá vinnu í samstarfi við allt starfsfólk sveitarfélagsins, óháð sviði eða stofnun. Þess vegna mun Í – listinn beita sér fyrir því að bæta verkferla og efla svið og stofnanir sveitarfélagsins.

Síðan eru það blessuð skipulagsmálin. Umræðan um landfyllingu á Norðurtanga brennur einnig mjög á fólki. Það sem kristallast í því máli er brýn þörf á að aðalskipulag verði klárað. Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir sveitarfélagið og þar er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun þess til framtíðar. Í því felst landnotkun, byggðaþróun, samgöngu, þjónustukerfi og svo mætti lengi telja. Aðalskipulag er grundvöllur deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir ofl.

Þegar unnið er að svona skipulagi þá er ferlið þannig að fyrst er unnin lýsing á skipulagsverkefninu þar sem koma fram áherslur og upplýsingar um forsendur. Auglýsing á lýsingu er bara lýsing á ferlinu sem liggur fyrir, m.ö.o. hvernig unnið verði að málinu. Sveitarstjórn ber ekki að svara athugasemdum á þessu stigi, heldur á því næsta þegar tillagan er sett fram og þá gefst íbúum tækifæri á að koma með athugasemdir sem sveitarstjórn ber að svara. Málið með þessa uppfyllingu er að það er ekki komið á þann stað. Mér finnst mikilvægt að íbúar fái kynningu á þeirri tillögu sem verður, á opnum fundi. Þar eftir fái allir tækifæri á að skila inn athugasemdum, sem er jú gert samkvæmt lögum þar um og þá ber sveitarstjórn að svara þeim og standa í lappirnar með þá ákvörðun/niðurstöðu sem út úr ferlinu kemur.

Það er mjög eðlilegt að horft sé í krónur og aura hér, bæði hvað varðar kostnað við framkvæmd og hugsanlegar tekjur af framkvæmdinni. Sérstaklega þegar markmið okkar er að fjölga íbúum og auka tekjur sveitarfélagsins. Það er líka mjög eðlilegt að fólk hafi skoðanir, sem betur fer segi ég nú bara. Öll rök eiga rétt á sér.

Sveitarstjórn verður alltaf að horfa til langs tíma í þessu samhengi og þess vegna eigum við að vinna að því að klára aðalskipulagið og vinna það eins og lög og reglugerðir gera ráð fyrir í samráði við íbúa.

Við þurfum að styrkja enn frekar búsetuskilyrði í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins með vandaðri þjónustu og uppbyggingu innviða. Hér er fjölbreytt samfélag með spennandi búsetukosti fyrir einstaklinga og fjölskyldur á öllum aldri. Við þurfum að búa svo um hnútana að ekki standi á sveitarfélaginu þegar kemur að uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Þess vegna vill Í-listinn einfaldari og aðgengilegri stjórnsýslu, auka skilvirkni og stytta afgreiðslutíma erinda , sinna viðhaldi mannvirkja og eigna Ísafjarðarbæjar og síðast en ekki síst að styðja umhverfis- og eignasvið til að sinna verkefnum sínum.

Við í Í listanum ætlum að hlusta – hugsa – hlæja smá – og taka svo af skarið.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir 4. sæti Í-listans

DEILA