Sterk fjármálastjórn undirstaða vaxtar

Ísafjarðarbær er í vexti. Þau merki getum við séð víðsvegar um sveitarfélagið. Skortur er á húsnæði í öllum byggðakjörnum, flest fyrirtæki hafa meira en nóg að gera, það er lítið atvinnuleysi og svo sjáum við fram á fjölgun barna í skólum sveitarfélagsins í haust. Þetta eru jákvæðar fréttir.

Ísafjarðarbær þarf að geta staðið undir þessum vexti og allri þeirri uppbyggingu sem er framundan. Síðustu ár hafa verið erfið í rekstri Ísafjarðarbæjar. Tapið árið 2020 var 608 m.kr. og halli ársins 2021 hljóðar upp á 396 m.kr. Þetta er meiri en milljarður á tveimur árum! Það er alltof lítið  framkvæmdarfé miðað við þörf fyrir nauðsynlegar framkvæmdir og viðhald. Í ofanálag  þurfum við að horfast í augu við mikla skuldaaukningu með tilheyrandi vaxtakostnaði. Það er dýrt að vera fátækur.  Við getum ekki haldið áfram á þessari braut og verðum að grípa til aðgerða.

Hvað er til ráða?

Þegar svona er komið fyrir sveitarfélagi rekstrarlega séð þá er afar brýnt að vera með sterka fjármálastjórn, horfa í hverja krónu og spyrja sig reglulega hvort farið sé vel með skattfé íbúa. Við þurfum að setja okkur markmið í rekstri, því þannig náum við árangri. Þá þarf að forgangsraða framkvæmdum og horfa til þeirra sem skila tekjum, eins og Sundabakkinn er gott dæmi um.

Hvernig aukum við tekjur? Það gerum við með að fjölga útsvarsgreiðendum og styðja við fyrirtæki sem starfa eða vilja starfa í Ísafjarðarbæ. Það getum við gert á margvíslegan hátt. Við þurfum að vera með lóðir til reiðu fyrir fólk og fyrirtæki sem vilja byggja. Þá þurfum við skilvirka stjórnsýslu sem þjónar með gleði til gagns, sem er einmitt kjörorð Ísafjarðarbæjar. Við þurfum hvetja fyrirtæki í bænum til dáða og leyfa þeim að finna fyrir stuðningi Ísafjarðarbæjar.   

Ísafjarðarbær sem og önnur sveitarfélög þurfa að fá fleiri tekjustofna til að standa undir þjónustu og nauðsynlegri uppbyggingu. Við höfum verið óþreytandi að benda á auðlindagjöld af fiskeldi ættu að renna til þeirra sveitarfélaga sem eru með slíka starfsemi. Við í Í-listanum  munum halda áfram að berjast fyrir þessum tekjum sem við eigum rétt á og þurfum nauðsynlega á að halda. 

Vöxtur eykur tekjur

Við verðum að takast á við skort á húsnæði í samstarfi við aðra hagaðila og óhagnaðardrifin félög. Í-listinn hefur lagt fram slíkar tillögur á kjörtímabilinu við dræmar undirtektir. Verktakar og aðrir sem vilja byggja þurfa fyrirsjánleika. Hvar er framtíðarbyggingarland? Þarf ekki að þétta byggð? Þessum spurningum þarf að svara í aðalskipulagi sem einmitt er í endurskoðun. Sú vinna hefur farið verulega af sporinu. Aðalskipulagið átti að vera tilbúið í desember 2020 og enn er langt í land að sjái fyrir endann á vinnu við það. Ég held við getum öll verið sammála um að húsnæðisskortur má ekki verða til þess að það dragi úr uppbyggingu. 

Það gefur á bátinn í rekstri Ísafjarðarbæjar, þökk sé núverandi meirihluta. Það eru bjartar horfur í uppbyggingu og atvinnulífi ef rétt er haldið á spöðunum. Við þurfum sterka, framsýna bæjarstjórn sem hlustar og berst fyrir hagsmunum íbúa.

Setjum X við Í á kjördag 

Arna Lára Jónsdóttir 5. sæti Í-listans