Sjáumst í Ísafjarðarbæ

Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar eru fulltrúar okkar út á við og tala máli okkar. Við viljum heyra hvaða skoðanir þeir hafa á bæjarmálum, landsmálum og lífinu sjálfu. Til þess að rödd þeirra heyrist þarf að mynda traust við stóra og smáa fjölmiðla og svara símanum þegar fjölmiðlar hafa samband. Auk þess þarf stundum að ota sínum tota ef bæjarstjórn hefur skilaboð sem á erindi við almenning.

Bæjarstjóri og bæjarstjórn eiga að vera sýnileg. Íbúar eiga að þekkja bæjarstjórann sinn. Þetta kostar ekki mikinn pening, en áhrifin af því að vera sýnilegur eru ómetanleg. Upplýsingum er miðlað, sjónarmiðum komið á framfæri og við finnum meira fyrir meiri samkennd.

Oft þarf að tuða og kvarta. Hjá því er ekki komist og um það snúast stjórnmál. En þá er þeim mun mikilvægara að draga fram það jákvæða, skemmtilega og góða sem í samfélaginu er.

Sjáumst líka í göngutúr

Í-listinn vill einnig taka göngutúra um alla kjarna sveitarfélagsins á kjörtímabilinu til að kynna sín sjónarmið, kanna stöðu mála og heyra sjónarmið íbúa. Þetta var gert þegar Í-listinn var síðast í meirihluta og gafst vel. 

Gylfi Ólafsson oddviti Í-listans

DEILA