Samstarf Neyðarlínunnar og farsímafyrirtækjanna stuðlar að auknu öryggi

Kynning á samstarfi Neyðarlínunnar og farsímafyrirtækjanna Nova, Vodafone og Símans fór fram í gær.

Um er að ræða mikilvægt og tímabært verkefni þar sem viðeigandi aðilar hafa tekið höndum saman um tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslands.

Þetta skapar aukið öryggi þar sem víðar verður hægt að ná sambandi við neyðarnúmerið 112 sem og önnur símanúmer.

Þetta er mögulegt með samstarfi framangreindra aðila sem nýta sér svokallaða MOCN tækni, (e. Multi-Operator Core Networks) þar sem sami sendir getur tengst kjarnakerfum allra farsímafélaganna og fjarskiptasendar og tíðni á afskekktum stöðum þannig samnýtt.

Þetta virkar þannig að Neyðarlínan setur upp fjarskiptaaðstöðu og nauðsynlegan búnað eins og mastur og rafmagn á stöðum þar sem markaðslegar forsendur eru ekki fyrir hendi vegna lítillar farsímanotkunar.

Neyðarlínan er í samstarfi við eitt þriggja farsímafélaganna sem setur upp sendibúnað á staðnum með opinberum fjárstyrk, en farsímar viðskiptavina farsímafélaganna hafa jafnan aðgang að sendinum. Þetta fyrirkomulag tryggir að símasamband næst jafn greiðlega hjá viðskiptavinum allra farsímafélaganna.

Í samningi á milli aðila kemur m.a. fram að Neyðarlínan ákveður hvar þörf er á uppsetningu sendis og í framhaldi af því er farsímafélag valið til að annast verkefnið. Í samningnum er ekki kveðið á um hámarksfjölda sendastaða en Neyðarlínan velur sendistaði meðal annars m.t.t. alþjónustukvaðar félagsins á hverjum tíma og er ekkert því til fyrirstöðu að þétta netið á næstu misserum, enda tilgangurinn með verkefninu að stuðla að því að koma á farsímaþjónustu þannig að sem víðast sé hægt að hringja í 112 til þess að kalla eftir hjálp.

DEILA