Sameining Skógræktar og Landgræðslu til skoðunar

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur látið hefja forathugun á sameiningu tveggja lykilstofnana í loftslagsmálum, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Með því að sameina fagþekkingu og krafta þessara stofnana verði til öflug stofnun sem sinni ráðgjöf við nýtingu lands og styðji við eflingu allra vistkerfa og landgæða til framtíðar.

Þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins þar sem segir að stofnanirnar vinni báðar að vistvernd og nýtingu lands og þar með að mörgu leyti hliðstæð verkefni sem snúa að losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda.

Landgræðslan og Skógræktin eigi báðar ríka og farsæla sögu um samstarf með grasrótarsamtökum, almenningi og landeigendum. Það umhverfi sem stofnanirnar vinna í hafi tekið hröðum breytingum, og væntingar almennings og stjórnvalda hafi breyst. Ákvörðun matvælaráðherra sé tekin með tilliti til þessa, augljósrar skörunar verkefna og mikillar samlegðar.