Ósamkeppnishæf aðstaða til íþróttaiðkunar

Ég hef aldrei verið mjög pólitískur maður.   Ég hef aldrei verið djúpt inn í sveitastjórnarpólitík eða í landspólitíkinni.   Ég hef alltaf verið pólitískt viðrini ef að þannig má að orði komast.   Ég hef aldrei verið tengdur einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokki fyrir utan það að þegar ég var ungur maður skráði ég mig í Sjálfstæðisflokkinn á Ísafirði en það var bara gert til þess að hjálpa vinkonu í prófkjöri.  Ég sagði mig svo úr þeim flokki við fyrsta tækifæri eftir það prófkjör.   Ég sit oft til hliðar og hlusta á fréttir, umræður og les á netinu það sem mér finnst áhugavert í aðdraganda kostninga.   Ég hef aðeins verið að fylgjast með umræðunni í mínum gamla heimabæ og þá tengt þeim málefnum sem liggja mér næst þar.   Ég ætla að henda fram smá pælingum um það.

Eins og allir sem mig þekkja þá er ég borinn og barnfæddur Ísfirðingur.  Ísafjörður er og verður alltaf “heima” fyrir mér.   Eins og harðkjarna ísfirðing sæmir þá flagga ég ávalt ágæti Ísafjarðar allstaðar þar sem ég kem og stundum meira en góðu hófi gegnir.     Að alast upp á Ísafirði var frábært þegar ég var krakki og unglingur.   Þarna gerði ég allt sem ég vildi og uni hag mínum vel.   Ég var á fullu í íþróttum sem var og er mitt aðal áhugamál.   Á veturna æfði ég skíði og á sumrin var ég í fótbolta.   En þetta var staðan þegar ég var ungur.   Þá var fótbolti bara sumarsport.   Þá voru ekki einu sinni fótboltaæfingar á veturna.   Aðstaðan var ekki til staðar.  Þá var bara pínulítill íþróttasalur sem að náði kannski hálfum körfuboltavelli í stærð.  Alveg þar til að íþróttahúsið á Torfnesi var tekið í gagnið að mig minnir árið 1994.   Þá fékk körfuboltinn topp aðstöðu til að æfa íþrótt sína og jú fótboltinn komst þar inn líka. 

Í dag er staðan allt önnur í heimi íþrótta bæði barna og fullorðina.   Það er nú bara staðreynd að knattspyrna er orðið heilsárssport.  Út um allt land er knattspyrna stunduð allt árið um kring.  Æfingar og mót út um allt við góðar eða mjög góðar aðstæður.    Þarna sitja Ísfirðingar og Vestfirðingar eftir með sárt ennið.   Á meðan að fótboltakrakkar og fullorðnir æfa íþrótt sína annað hvort á góðum gervigrasvöllum eða í knattspyrnuhúsum þá eru fótboltaiðkenndur á Ísafirði annaðhvort að skottast um á hörðu parketi á Torfnesi eða skokkandi um í sandfjörum bara til þess að hafa eitthvað.    Þarf þetta virkilega að vera svona?   Er virkilega engin vilji hjá ráðafólki á Ísafirði til þess að gera þessa hluti betur?  Gera hlutina þannig að hægt sé að bera sig saman við aðra bæji á Íslandi?   Ég ætla að nefna hér nokkra bæi, Sauðárkrókur, Akureyri, Dalvík, Húsavík, Egilstaðir, Reyðarfjörður (Fjarðarbyggð í heild), Höfn, Selfoss, Hveragerði, Akranes, Ólafsvík, Reykjanesbær, Grindavík…… Allt eru þetta bæjir sem státa af mun betri íþróttaaðstöðu en Ísafjörður.   Þarna eru annaðhvort knattspyrnuhús eða góðir, upphitaðir gervigrasvellir til knattspyrnuiðkunar. 

Í gær hitti ég brottfluttan Ísfirðing eins og mig.  Við eigum það sameiginlegt að hafa báðir spilað fullt af leikjum fyrir meistaraflokk BÍ og seinna BÍ/Bolungarvíkur.   Við eigum báðir börn á grunnskólaaldri og yngra.   Við fórum að ræða þessi mál saman og vorum sammála í flestu.   Ég á tvær dætur.  Sú eldri æfir fótbolta og sú yngri æfir handbolta og fótbolta með Gróttu á Seltjarnarnesi.   Hér æfa þær fótboltann sinn úti 12 mánuði á ári.   Yfir vetrartímann mæta þær reglulega í keppnisleiki og mót hér og þar um höfðuborgarsvæðið og nágreni.  Þetta gera þær afþví að þær geta það.  Aðstaðan er til staðar.   Þær elska íþróttirnar sem þær stunda.   

Í gegnum árin hefur maður heyrt umræður um fólksfækkun á Ísafirði og Vestfjörðum og hvað sé hægt að gera til þess að fá ungt fólk, jafnvel með börn, til þess að búa á Ísafirði eða til þess að flytja á Ísafjörð.     Ég og þessi brottflutti Ísfirðingur sem ég spjallaði við í gær ræddum það bara af fúlustu alvöru….. Afhverju ætti ég að gera dætrum mínum það að flytja á Ísafjörð?  Þar sem þær geta bara stundað áhugamál sín að mjög takmörkuðu leiti??   Mér þætti vænt um það ef einhver gæti fært góð og gild rök fyrir því afhverju einhver ætti að flytja á Ísafjörð út frá þessum forsendum.  

Þessi pistil er ekki skrifaður til þess að hafa áhrif á það hvað fólk mun kjósa á Ísafirði.  Þetta er ekki skrifað til þess að upphefja eitt framboð og drulla yfir annað.   Þetta er eingöngu skrifað vegna þess að mér þykir vænt um bæinn minn og vil honum allt það besta.   Staðan er einfaldlega sú að þessi aðstaða er til háborinar skammar.   Handónýtt gervigras sem er að nálgast 20 ára afmæli (gerivgras þarf að endurnýja á 5-6 ára fresti) sem er í besta falli slysahætta fyrir þá sem það nota og svo íþróttahús sem að knattspyrnan deilir með handbolta, körfubolta, blaki, skólastarfi og sjálfsagt fleiri íþróttum.   

Ég nenni ekki að fá einhver loforð um bót og betrun.   Ég er búinn að sjá svoleiðis loforð í mörg ár og ekkert hefur gerst.   Það þarf að taka af skarið.  Vilji er allt sem þarf.  Það er alltaf hægt að finna leiðir til fjármögnunar.   Einhvern veginn gátu allir hinir staðirnir sem ég nefndi hér að ofan þetta.   Þá getur Ísafjörður þetta líka.   

Guðmundur Guðjónsson

DEILA