Nýr ferðaþjónustubátur til Ísafjarðar

Sjöfn í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Eggert Stefánsson.

Á laugardaginn bættist nýr bátur í flota Sjóferða á Ísafirði þegar Sjöfn kom til hafnar eftir langa sjóferð frá Norður Noregi. Stígur Berg Sophusson sagði í samtali við Bæjarins besta að Sjöfn væri 58 tonn og 22,5 metra langt skip sem tekur 48 farþega.

Sjóferðir eru nú með þrjá báta í ferðaþjónustunni sem geta samtals tekið 126 farþega. Stígur sagði að það hefði komið í ljós í fyrrasumar að mörg verkefni voru fyrir hendi og því hefði hann afráðið að bæta við flotann. Hann sagði útlitið vera gott fyrir sumarið. “ Það eru allir bátarnir skráðir í verkefni hvern dag í allt sumar.“ Sjóferðir eru með áætlunarferðir í sumar í Jökulfirði, Aðalvík, Hornvík og í Vigur. Fimm sinnum í viku í Vigur, sex sinnum í Jökulfirði, fjórum sinnum í Hornvík yfir hásumarið og tvisvar í viku í Aðalvík.

En hvers vegna heitir nýi báturinn Sjöfn? „Jú, afi, Stígur Stígsson frá Horni átti gamlan trébát sem hét Sjöfn.“

DEILA