Minning: Ólympíukappinn frá Grænagarði

Mér er til efs að nokkurt byggðarlag hafi spilað stærra hlutverk í sögu Ólympíuleikanna en byggðin í Skutulsfirði gerði á vetrarólympíuleikunum í Osló árið 1952. Frá Tungu kom einn, frá Grænagarði komu tveir bræður og skammt utar úr firðinum, frá Ísafirði,  komu aðrir tveir bræður. Það lék alla tíð verðskuldaður ljómi um þessa glæsilegu fimmmenninga.

Nú hef ég ekki lagst í djúpar sagnfræðilegar rannsóknir en líklegt þykir mér að fá byggðarlög geti státað af jafnmörgum Ólympíuförum í gegnum tíðina en einmitt Ísafjörður ef við horfum til hinnar víðfrægu íslensku höfðatölureglu. Það er hins vegar mikið undrunarefni hvers vegna sveitungar mínir vestra þar gera þessari glæsilegu sögu ekki hærra undir höfði. Hvar sjá þeir tugþúsunda gesta sem Ísafjörð heimsækja árlega merki um þessa sögu.  Ekki heldur þeir fjölmörgu sem njóta dásemda Seljalands- og Tungudals. Í sjálfri Paradís skíðamanna.

Því er þetta rifjað upp að í dag kveðjum við þann síðasta úr þessum glæsta hópi ársins 1952. Farnir eru Ebbi í Tungu, hinn bróðirinn frá  Grænagarði, Oddur og bræðurnir Jón Karl og Haukur frá Ísafirði.

Ólympíufararnir í Osló 1952.

Gunnar Pétursson var goðsögn. Það eru svo margir eiginleikar hjá  Grænagarðskyninu  sem skilur það fólk frá öðru fólki. Vaxtarlagið, eljusemin, íhyglin í bland við fljótfærnina að ekki sé minnst á frásagnargáfuna og söguskýringar,  sem oft á tíðum geta breyst í eftiráskýringar. Að ekki sé talað um skíðamennskuna. Skíði eru þeirra bestu skór.  Alla þessa eiginleika hafði Gunnar. Flesta þeirra í ríkum mæli.

Það var reyfarakenndur blær yfir flutningabílstjórum í minni æsku. Trúlega komu þeir í stað flugmannanna í öðrum og stærri samfélögum. Þeystu um landið í hvaða veðri sem var. Lentu í mannraunum og kvennaljómaorðið var aldrei langt undan.

Það var því löngum talsvert eftirsótt að vinna hjá þeim fóstbræðrum Gunnari & Ebenezer. Sögur úr þessum herbúðum gerðust trúverðugri þegar einn af mínum bestu  vinum minn yfirgaf hálaunasumarstarf í tækjasal Norðurtangans til þess að upplifa lífsmáta flutningabílstjórans. Skammvinnt sumarstarfið nægði þó ekki til meiri frægðar en að dreifa mjólk og annarri smávöru um þorpin á norðanverðum Vestfjörðum. Sögurnar af vinnufélögunum skiluðu sér þó til okkar vinanna og lifa enn stundum eilítið kryddaðar af öðrum vini okkar,  grængerðingi. Læknisstarfið varð hins vegar að lokum hlutskipti sumarbílstjórans og var það vel ráðið.

Gunnar var málafylgjumaður. Hafði afar skýrar skoðanir á flestum málum. Mér er til efs að þau séu mörg dæmin um að hann hafi skipt um skoðun. Það er bara svo inngróið í Grænagarðskynið að gera það eiginlega aldrei. Hvað sem tautar og raular. Áhugi hans og barátta fyrir bættum samgöngum var rauði þráðurinn.  Sá slagur stóð ævina alla. Suma vegina lögðu þeir félagar, hann og Ebbi,  meira að segja sjálfir ásamt sínum starfsmönnum.

Gunnari kynntist ég fyrst að einhverju marki er ég fór að vinna með hans ágætu og eftirminnilegu konu henni Siggu. Hún er ógleymanleg öllum sem henni kynntust. Það voru skemmtileg ár.  Mér er mjög til efs að fátt eða nokkurt fólk hafi átt jafn traust bakland en einmitt þeir sem Sigga stóð að baki. Ekki síst hann Gunnar minn, eins og hún nefndi hann ávallt. Nú er ég ekki viss um að Gunnar hafi verið sérstaklega auðveldur í sambúð. Nefndi það einhvern tímann við Siggu en hún bara hló. Það er einstaklega ljúft að rifja upp þessi gömlu kynni.

Þegar Gunnar Ólympíukappi er kvaddur hinsta sinni er hollt að minna á að afreksmenn í íþróttum efla sjálfstraust samborgara sinna. Það gerir saga þeirra líka og henni eigum við að gera hátt undir höfði.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til allra aðstandenda Gunnars og Siggu. Minningin um þau hjón lifir.

Halldór Jónsson.

DEILA