Landsbankahúsið gengur í endurnýjun lífdaga

Regus hefur opnað nýja fjarvinnuaðstöðu að Pólgötu 1 á Ísafirði. Þar geta nú allt að 30 manns starfað saman á skrifstofum, í fundarherbergjum og opnum vinnurýmum. Að sögn Tómasar Ragnarz, eiganda Regus á Íslandi, er opnunin á Ísafirði í samræmi við stefnu fyrirtækisins um að opna slíkar fjarvinnustöðvar um allt land á komandi misserum. Það sé byggðamál að tryggja góðar vinnuaðstæður á landsbyggðinni, þannig að fólk geti raunverulega sinnt störfum án staðsetningar.

Pólgata 1 á Ísafirði hýsti áður útibú Landsabankans, en það flutti úr húsínu í fyrra. Pólgata 1 er jafnan talið eitt helsta kennileiti bæjarins en við byggingu hússins á árunum 1956 til 1958 var stuðst við teikningar Guðjóns Samúelssonar en arkitekt var Bárður Ísleifsson. Við endurbætur á húsinu gerði Regus sögu hússins hátt undir höfði. Þannig er eitt fundarherbergjanna í gömlu bankahvelfingunni auk þess sem nafn útibúsins, Regus Bank Ísafirði, vísar til sögu þess sem bankaútibús.

Tómas segir að Regus sé stolt að geta opnað jafn stórt og fullkomið útibú á Ísafirði, sem bjóði upp á allar þjónustuleiðir Regus á heimsvísu. „Fólk sem gengur inn á skrifstofur okkar í Lundúnum eða annars staðar í heiminum getur gengið að sömu gæðum á Ísafirði, rétt eins og á öðrum útibúum okkar á Íslandi. Það er markmið okkar að geta boðið fólki, hvar sem það starfar í heiminum, upp á góða aðstöðu og þann sveigjanleika sem vinnumarkaður nútímans krefst,“ segir Tómas.


Það sé stefna Regus að opna sambærilegar fjarvinnustöðvar um allt land á komandi misserum, en nýlega opnaði Regus útibú í Borgarnesi. Tómas segir það ekki aðeins mikið byggða-, lífsgæða- og umhverfismál að fólk geti starfað í góðu umhverfi hvar sem það vill, hvenær sem það vill, heldur sé það jafnframt í takti við þá þróun sem er að verða í atvinnumálum heimsins. Störf án staðsetningar séu að verða regla frekar en undantekning og Regus sé að bregðast við þeirri þróun með opnun fjarvinnustöðva eins og þeirrar á Ísafirði.

„Við erum þakklát fyrir móttökurnar á Ísafirði sem hafa verið framar okkar björtustu vonum. Það er mikill heiður að fá að nýta þetta sögufræga hús og við getum stolt sagt að þar sé nú að finna glæsilegustu skrifstofu á Vestfjörðum – og þó víðar væri leitað,“ segir Tómas Ragnarz, eigandi Regus á Íslandi.

DEILA