Landið lyftist, sígur og færist

Árið 2021 létu Landmælingar Íslands vinna ný INSAR kort af Íslandi sem sýna hæðarbreytingar og austur-vestur færslur á landinu fyrir tímabilið 2015-2020. Kortin eru unnin út frá gögnum úr Sentiel-1 gervitunglunum sem er hluti af Copernicusaráætlun Evrópusambandsins. Einungis er notast við sumargögn til þess að snjór trufli sem minnst niðurstöðurnar. Sambærileg kort hafa verið unnin áður af Jarðvísindastofnun Háskóla Ísland í samstarfi við Landmælingar Íslands en það var fyrir tímabilið 2015-2018.

Á kortinu fyrir hæðarbreytingarnar má sjá greinilegt landris með hámark við Vatnajökul sem stafar af bráðnu á jöklum landsins. Þá má einnig sjá töluvert landsig í kringum jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi og á Hellisheiði. Þá er landrisið í Þorbirni sem markaði upphafið af óróanum á Reykjanesi mjög greinilegt. Á tímabilinu 2015-2018 mældist þó landsig á þessu svæði. Einnig má sjá staðbundið landris eða landsig í kringum sumar af eldstöðvum landsins.

Þegar kortinu með austur-vestur færslunum er skoðað sjást flekaskil Norður-Ameríku og Evrasíuflekans greinilega. Þá má sjá landbreytingar vegna jarðskjáftavirkninar á Reykjanesi á árinu 2020. Vissulega eru færslurnar á Reykjanesinu ennþá meiri í dag eftir alla virknina sem var á árinu 2021.

Landmælingar Íslands hyggjast vinna og gefa út INSAR kort af landinu með reglubundnum hætti, enda eru þessu gögn gríðarlega nytsamleg við rekstur og vöktun á landmælingakerfum Íslands sem er eitt af lögbundnum hlutverkum stofnunarinnar.

DEILA