Ísafjarðarbær: veitt veðleyfi í lóðum án heimildar

Bæjarfulltrúar Í listans gagnrýna Birgi Gunnarsson, bæjarstjóra fyrir að veita veðleyfi í lóðum bæjarins án heimildar og segja hann hafa brotið lög.

Í bókun Í listans með afgreiðslu ársreiknings sveitarfélagsins fyrir 2021 segir:

„Við endurskoðun frá KPMG kemur í ljós að bæjarstjóri braut 69.gr. sveitarstjórnarlaga þegar hann veitti veð í lóðum Ísafjarðarbæjar til trygginga skuldbindinga þriðja aðila í Landsbankanum í september 2021. Það er með öllu óheimilt eins og kemur fram í áliti KPMG og gerum við bæjarfulltrúar Í-listans alvarlegar athugasemdir við þennan gjörning bæjarstjóra.“

Í endurskoðunarskýrslu KPMG segir tryggingarbréf dags 22. sept 2021 hafi verið undirritað þar sem þriðja aðila var veitt veð í lóðum til tryggingar félagsins gagnvart Landsbankanum. „Ekki liggur fyrir samþykki bæjarráðs eða bæjarstjórnar fyrir undirritun skjalsins og verður ekki séð að þessi ábyrgð uppfylli skilyrði 69. greinar sveitarstjórnarlaga sem heimilar einungis ábyrgðir gagnvart stofnunum eða fyrirtækjum sveitarfélagsins.“

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri segir að lóðarleigusamningar hafi fram til þessa verið gefnir út af Ísafjarðarbæ við fokheldi og hafa því húsbyggjendur ekki getað veðsett eignirnar fyrr en þær eru orðnar fokheldar. Hann bendir á að á sama bæjarstjórnarfundi og þessu umræða fór fram hafi verið sér dagskrárliður, þar sem samþykkt var að breyta þessu og að lóðarleigusamningar skuli gefnir út þegar búið er að steypa plötu undir húsið. „Þetta er til samræmis við það sem tíðkast annars staðar á landinu og léttir húsbyggjendum að fá fjármögnun á sínar framkvæmdir. Þessi breyting á reglum um lóðaúthlutanir var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum“ segir Birgir.

„Það sem um var að ræða í þessu tilviki sem þú vísar til er að á þessum tíma þ.e. í lok september 2021 voru risin tvö hús við Ártungu 2 og 4. Það var hins vegar ekki búið að gefa út fokheldisvottorð, sem að öllu eðlilegu hefði átt að vera búið að gera en hafði tafist af ýmsum orsökum. Það var því veitt þessi heimild til veðsetningar, ábyrgðin fellur svo niður um leið og lóðarleigusamningur hefur verið gefin út. Það er það sem um var að ræða í þessu tilviki. Ef hefði verið búið að breyta lóðaúthlutunarreglum á þessum tíma þá hefði ekki þurft að koma til þessa. Þetta kemur fram sem ábending af hálfu endurskoðenda en það kemur jafnframt fram að ábyrgð Ísafjarðarbæjar sé ekki lengur til staðar og málið því úr sögunni.“

DEILA