Í-listinn er fyrir unga fólkið

Í-listinn berst fyrir málefnum unga fólksins, málefnum sem gera Ísafjarðarbæ að góðum og skemmtilegum stað. Ísafjarðarbær er mikill hreyfingar- og útivistarbær og það er fólki mikilvægt að hreyfa sig og geta verið úti í náttúrunni. Þá er gott að hafa góða stíga til að njóta útiveru. Í-listinn ætlar meðal annars að klára uppsetningu á útihreystitækjum, halda áfram að leggja hjóla- og göngustíga og skipuleggja opin svæði. Ísafjarðarbær er fullur af opnum svæðum sem þarf að nýta og skipuleggja betur. Í-listinn mun ráðast í þessar framkvæmdir strax á næsta kjörtímabili. 

Örnu Láru sem bæjarstjóra

Bæjarstjóraefni Í-listans er Arna Lára Jónsdóttir. Hún er Ísfirðingur og þekkir sveitarfélagið og þarfir íbúanna vel. Hún er með 16 ára reynslu sem bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ og hefur setið sem varaþingmaður á Alþingi. Hún hefur verið virk í ýmiskonar íþróttastarfi og þekkir vel til þess. Öll reynslan sem hún býr að nýtist vel í starfi bæjarstjóra svo traust og samvinna sé í hávegum haft. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að íbúar þekki bæjarstjórann sinn og að bæjarstjóri þekki þá.

Arna Lára er opin fyrir hugmyndum unga fólksins. Hún sér tækifærin í uppbyggingu og nýsköpun og veit hvað Ísafjarðarbær hefur fram að færa. 

Í stjórnmálum er traust svo mikilvægt. Við hjá Í-listanum erum traustsins verð. Við ætlum okkur að hlusta á íbúa í sveitarfélaginu og leggja okkur fram um að verk okkar séu í takti við þarfir þeirra. Þess vegna er svo mikilvægt að segja X við Í á laugardaginn næstkomandi.

Einar Geir Jónasson, 12. sæti Í-listans

DEILA