Fögnum brjáluðum hugmyndum og eflum íbúalýðræði

Magnús Einar Magnússon, bæjarfulltrúi.

Ég er smábæjarmaður og fagna því þegar einhver kallar mig slíkan. Ég hef búið á Flateyri bróðurpart ævinnar og sem íbúi þar hef ég upplifað miklar sveiflur, hvort heldur sem það er í íbúafjölda eða atvinnustarfsemi. Það hefur reyndar verið raunin með Vestfirði alla og eftir langt skeið íbúafækkunar og niðursveiflu á mörgum sviðum erum við nú í sókn. Stærsta jákvæða breytingin sem ég hef séð á Flateyri í langan tíma er stofnun Lýðskólans. Í kringum hann er líf og fjör og nýtur hann mikils velvilja. Á dögunum var tekin skóflustunga að nýjum nemendagörðum sem hýsa munu nemendur skólans og gera það að verkum að fleiri geta stundað þar nám. Byggingin er fyrsta íbúðarhúsnæði sem rís á Flateyri í 25 ár.

Lýðskólinn er gott dæmi um hugmyndir sem kunna að virka svolítið brjálaðar í fyrstu en eru svo vel framkvæmanlegar þegar til kastanna kemur. Til að svona hugmyndir verði að veruleika þarf sveitarfélagið að styðja við þær og það fólk sem er svo áræðið að koma með þær. Við í Í-listanum viljum veita frumkvöðlum stuðning til að geta hleypt af stokkunum öflugum verkefnum sem styðja við jákvæða byggðaþróun í öllum kjörnum sveitarfélagsins. 

Íbúalýðræði í fámennari kjörnum

Við þurfum að endurskoða almenningssamgöngurnar, sérstaklega með tilliti til barna. Þau þurfa að eiga kost á því að stunda íþróttir og félagslíf þvert á kjarna.

Endurskoðun á því er gott dæmi um mikilvægi samráðs við íbúa. Við í Í-listanum viljum gefa í þegar íbúalýðræði er annars vegar og færa meira vald í hendur íbúa fámennari kjarnanna yfir þeirra eigin málum. Við þurfum að endurskoða hverfisráðin og skoða möguleikann á heimastjórnum með auknum valdheimildum. Það verður gengið til kosninga á laugardag það er líka vald fólgið í því að geta valið sína fulltrúa til setu í bæjarstjórn. Setjum X við Í. 

Magnús Einar Magnússon 3. sæti Í-listans 

DEILA