Er ekki bara best að kjósa …….. ?

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Glöggt er gests auga. Ágæti lesandi, fréttamaður Stöðvar 2 var á ferð um Ísafjarðarbæ til að fjalla um komandi bæjarstjórnar kosningar sagði að það væri enginn samhljómur á milli kjósenda og stefnumála þeirra flokka sem eru í framboði hér í bæ, er þetta virkilega rétt?
Ég eins og margir aðrir hef ekki gert upp hug minn varðandi komandi kosningar, hef ekki hugmynd um hvað ég á að kjósa. Eftir að hafa lesið þær greinar sem hafa verið birtar á bb.is eftir nokkra af frambjóðendum þeirra þriggja flokka sem bjóða fram hér í bæ er ég engu nær.
Oddviti Í-listans talar um að gefa starfsfólki á skipulags- og eignasviði vinnufrið, góð skipulagsmál er forsenda þess að bæjarfélög vaxi og dafni en því miður er þau mál í algjörum ólestri hér í Ísafjarðarbæ og hafa verið lengi. Við höfum ítrekað horft upp á að fyrirtæki hafa gefist upp á samskiptum við bæjaryfirvöld og fallið frá hugmyndum sínum um atvinnuuppbyggingu t.d. aðstöðu fyrir bátalyftu, laxasláturhús og núna er ekki hægt að skilja annað á forsvarsmönnum þess fyrirtækis sem ætluðu sér að reisa fullkomið vinnsluhús bæði fyrir laxfisk og hvítfisk á Suðurtanga að þau áform séu komin á ís, kannski ekki skrítið ef ekki er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir skip þeirra við nýja hafnargarðinn. Ég tel reyndar persónulega að það sé mikil hætta á að við missum þetta stórfyrirtæki úr bæjarfélaginu vegna þess að skipulagsmál eru hér í algjörum ólestri eins og áður hefur komið fram.
Aðeins að laxasláturhúsi í grein í bb.is þann 26. janúar sl. rakti frambjóðandi Í-listans þetta mál ágætlega og hitt einmitt naglann á höfuðið þegar taldir voru upp allir þessir fundir, fund eftir fund vikum og mánuðum saman, er þetta ekki einmitt málið það skeður akkúrat ekki neitt í þessum málaflokki. Bara svona til að setja þetta mál í krónur og aura þá námu tekjur af aflagjaldi fiskeldis í Vesturbyggð 2020 um 100 milljónir, ágæti lesandi þetta reiðuleysi í skipulagsmálum er algjörlega óviðunandi og kostar bæjarfálagið mörg hundruð miljónir í töpuðum tækifærum.
Alltaf kemur þetta samt jafnmikið á óvart hjá frambjóðendum sem skilja bara ekkert í þessu, hafa þeir virkilega ekki lesið þær spár um íbúaþróun sem Hagstofan hefur gefið út um áraraðir og hafa verið að raungerast lengi, við þurfum að nota hvert einasta tækifæri til að auka atvinnu hér á þessu svæði.
Eins og ég sagði veit ég ekki hvað ég ætla að kjósa en hitt veit ég að þessi froða sem Í-listinn ber á borð fyrir okkur hér í aðdraganda á þessum kosningum kemur ekki til með að skila neinu. Ætlar Ílistinn t.d. að setjast niður með vel menntuðum grunnskólakennara sem langar að flytjast hingað vestur til að starfa, byggja sér húsnæði og koma upp fjölskyldu að hann þurfi líklega að vinna um það bil 2 vikum lengur á ári bara til að greiða fasteignagjöld af nýja húsinu sínu en t.d. sami kennari á Akranesi gerir, slík er skattpíning bæjarfélagsins að verða, þá er ótalinn margfaldur
kyndingarkostnaður,hár flutningskostnaður, leikskólagjöld í hæstu hæðum og byggingarkostnaður með því hæsta sem gerist á þessu landi.
Það er varla minnst einu orði á fjármál, eru þau orðin svo slæm að flokkarnir leggja ekki í þann slag? Er ekki betra að vera hreinskilin við okkur íbúa, ekki vera að láta hlutina hljóma betur en þeir eru. Það eru erfiðir tímar fram undan og því miður held ég að rekstrargrundvöllur okkar sé brostinn og hefur verið það lengi. Það er ekki hægt að reka þetta samsetta bæjarfélag með þeim tekjugrunni sem er til staðar í dag, því miður verður eitthvað að láta undan, en það eina sem þenst út er rekstur bæjarskrifstofunnar.
Að sitja á endalausum fundum og lepja latte hefur aldrei skilað neinu og mun aldrei gera það. Það þarf fólk til forustu með þor, dugnað og vilja til að berjast fyrir bæjarfélaginu sínu. Að ætla sér að leysa vandamál bæjarfélagsins í einhverjum göngutúrum er fjarstæða enda held ég að oddviti Í-listans þurfi nú að gæta sín á göngunni þegar fara um 40 til 50 vöruflutningabílar á dag um Sól- og Hrannargötu á leið til og frá Bolungarvík með eldislax, götur sem varla bera þá umferð sem er í dag.
Ég get ekki með neinu móti séð hvað Í-listinn geti komið með að þessu borði, ágæti lesandi sumir þessara frambjóðenda hafa fengið tækifæri frá árinu 2006 til þess að breyta og ekkert komið út úr því enda er auðveldara að telja upp snjókomuna í Sahara eyðimörkinni á síðustu öld heldur en afrek Ílistans frá stofnun. Því að lokum segi ég, er ekki bara best að kjósa …….. ? þú veist!


Gylfi Sigurðsson Ísafirði

DEILA