Eggjatínsla frá villtum fuglum

Matvælastofnun fær mikið af fyrirspurnum um hvort fólki stafi smithætta af tínslu og neyslu eggja villtra fugla vegna fuglaflensu. Stofnunin vill því koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Rétt er að gæta almenns persónulegs hreinlætis við eggjatínslu, sem m.a. felur í sér góðan handþvott eftir tínsluna.

Ef veikinda eða óeðlilega mikils fjölda dauðra fugla verður vart, er lagt til að láta af eggjatínslunni í þeim hópi og tilkynna um málið til Matvælastofnunar.

Engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglaflensu við neyslu matvæla, aðeins við mikið návígi við sjúka fugla. Fólk þarf þó ætíð að líta svo á að hrá egg geti verið menguð af sjúkdómsvaldandi örverum.

Ávallt ber því að meðhöndla hrá egg með tilliti til þessa og gæta fyllsta hreinlætis við matreiðslu, koma í veg fyrir krosssmit í matvæli sem eru tilbúin til neyslu og huga að því að eggin séu nægilega vel elduð/hituð.

DEILA