Bolungavík: bæjarstjórinn endurráðinn

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, oddviti K-lista í Bolungavík, máttur meyja og manna, segir að Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri verði endurráðinn til starfa næsta kjörtímabil. Jón Páll var ráðinn af fráfarandi meirihluta Sjálfstæðismanna og óháðra en enginn breyting verður á högum hans þrátt fyrir meirihlutaskipti í kosningunum á laugardaginn.

Söguleg úrslit

Þau óvæntu tíðindi urðu að K – listinn hafði betur og fékk 251 atkvæði og fjóra bæjarfulltrúa en D -listinn fékk 218 atkvæði og þrjá fulltrúa. Það er í fyrsta skipti sem annar listi en D-listinn fær meirihluta í bæjarstjórn og aðeins í annað sinn sem D-listinn fær ekki hreinan meirihluta. Í kosningunum 2006 missti D-listinn meirihlutann og fékk 3 fulltrúa, K-listinn , Bæjarmálafélags Bolungavíkur fékk einnig 3 fulltrúa og A-listi afl til áhrifa fékk einn fulltrúa. A-listinn var að nokkru leyti klofningur úr Sjálfstæðisflokknum og myndaði að kosningum loknum meirihluta með K-lista. Á kjörtímabilinu slitnaði upp úr því samstarfi og A-listi og D-listi mynduðu meirihluta út kjörtímabilið.

Samvinna og samstarf

Sigríður Hulda þakkaði Bolvíkingum fyrir stuðninginn og sagðis þakka áherslum K-listans á samvinnu og samstarf innan bæjarstjórnar sigurinn. Hún sagði að þau hefðu allt síðasta kjörtímabil lagt áherslu á gott samstarf við meirihlutann og hún hefði orðið vör við að eftir því hefði verið tekið utan Bolungavíkur og önnur framboð hefðu tekið upp þessar áherslur um samvinnu og samstarf. Það væri áfram helsta áhersluatriði listans.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir sagði að K-listinn vildi að Bolungavík væri eitt samfélag fyrir alla óháð uppruna. Hún benti á að íbúar af erlendum uppruna væru fjölmennir í sveitarfélaginu og nú væri einn nýkjörinna bæjarfulltrúa K-listans væri af pólskum ættum, Olga Agata Tabaka. Hún flutti vestur fyrir nokkrum árum og talar bæði pólsku og íslensku.

DEILA