Bolungavík: afstaðan til laxeldis

Papey fer með seiði út í kví. Mynd: Bragi Þór Thoroddsen.

Bæjarins besta leitaði eftir afstöðu framboðslista í Bolungavík til uppbyggingar á sjókvíaeldi, einkum laxeldi,  í Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum.

Sjókvíaeldi hefur síðustu 10 árin verið helsti vaxtarbroddurinn í atvinnumálum á Vestfjörðum og eru nú fimm fyrirtæki með leyfi til eldis í vestfirskum fjörðum. Á síðasta ári varð framleiðslan 27.500 tonn. Á sunnanverðum Vestfjörðum hefur laxeldið snúið við íbúaþróun svæðisins og fólki fjölgar. Talið er að bein störf af eldinu séu þar 160-170 og annað eins í óbeinum.

Nú er að hefjast sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Burðarþolsmat þess er 30.000 tonn en þá á eftir að meta burðarþol Jökulfjarða. Fyrirsjáanlegt er burðarþol þess svæðis töluvert. Þó er aðeins heimilt að ala 12.000 tonn af frjóum laxi í Djúpinu. Bein og óbein störf vegna eldisins í Djúpinu munu skipta hundruðum.

Eftirfarandi fyrirspurn var send báðum framboðslistum: Hver er afstaða listans til uppbyggingar á sjókvíaeldi , einkum laxeldi,  í Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum?

Svar D lista, sjálfstæðismanna og óháðra:

„Skoðun sjálfstæðismanna og óháðra er sú að við styðjum heilshugar alla uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum og viljum að fiskur sér alinn í öllum þeim fjörðum sem hæfir eru frá náttúrunnar hendi til fiskeldis. Þetta er hreint og klárt framfaramál fyrir Vestfirði og eigum við nýta okkar svæði til fiskeldis í sátt við náttúruna og efla þannig rannsóknir og þekkingu.“

Svar K lista, máttar manna og meyja:

„Við erum hlynnt sjókvíaeldi/laxeldi í Ísafjarðardjúpi með umhverfisvitund að leiðarljósi. Við erum ekki tilbúin að loka á eldi í Jökulfjörðum án rannsókna og auðvitað í sátt og samlyndi við aðra notendur Jökulfjarða.“

DEILA