Betra frístundastarf í Ísafjarðarbæ, árið um kring

Nú eru kosningar að baki, nýr meirihluti og bæjarstjóri hefur verið valinn af bæjarbúum og tilefni til að óska öllum til hamingju með ný hlutverk í þjónustu við bæjarbúa. Ég vil nota tækifærið til að vekja athygli á því sem kallast frístundastarf barna og hvernig fyrirkomulag er á því hér í bæ.

Í stuttu máli sagt er framboð Ísafjarðarbæjar lítið á sumrin og (eftir minni bestu vitund) takmarkað við Ísafjörð á veturna, þó það sé með miklum ágætum, það sem þó er í boði. Eftir að skóladegi lýkur um kl. 13:40 geta börn verið í frístundinni til kl. 16 og farið í tónlistarskóla eða íþróttaskóla HSV innan þess tíma, eða annað sem þau stunda af tómstundum. Frístund er lokað í skólafríum. Þegar skólanum er slitið að vori býðst börnum í 1. og 2. bekk að fara á leikjanámskeið á vegum HSV þar sem þau geta verið frá 8:30 til 12, virka daga í júní. Eftir það eru börnin sjálfala fram að skólabyrjun, nema þá daga sem foreldrar þeirra eru í sumarfríi. Þetta er staða mjög margra fjölskyldna á Ísafirði sem eiga lítið sem ekkert bakland. Ömmur, afar og eldri systkini eru ekki á hverju strái. Þegar börnin eru orðin unglingar geta þau farið smá tíma á sumri í vinnuskólann, en hvað þau bedríva þessi sumur þarna á milli getur verið misjafnt, svosem eins og að mæta af og til á íþróttaæfingar, hanga yfir sjónvarpi eða öðrum skjám, finna sér snarl að éta og hanga svo aðeins meira yfir skjám.

Ég hvet nýja fræðslunefnd, bæjarstjórn og bæjarstjóra ásamt skóla- og tómstundasviði til að fara í heildarendurskoðun á málefnum frístundar, félagsmiðstöðva og vinnuskóla. Það þarf að reyna að nýta fólk og aðstöðu með sem bestum hætti árið um kring, svo að þjónusta bæjarins við börn og ungmenni verði betri, í öllu sveitarfélaginu. Starfið þarf að vera skapandi og faglegt og fjölbreytt og ætti að efla sjálfstraust og félagsfærni í takt við viðmið um gæði frístundastarfs sem Menntamálaráðuneytið gefur út. Samþætting frístundaheimila og vinnuskóla á sumrin, undir stjórn hæfileikaríkra starfsmanna gæti til dæmis leitt af sér skemmtilega og óvænta hluti.

Sumarkveðja,

Sigríður Gísladóttir

Höfundur er móðir barns í 1. bekk á Ísafirði sem á veiðistöng, vesti og sprækan afa og þarf því litlu að kvíða um viðfangsefni sumarfrís.

DEILA