ART þjálfun – Bætt samskipti, betri líðan

Umræðan sem myndast hefur um skort á úrræðum fyrir börn og ungmenni sem glíma við hegðunar og tilfinningavanda, hér á Vestfjörðum hefur setið í mér. Þá fór ég að hugsa um snemmtæka íhlutun sem oft er talað um að sé bráðnauðsynleg. Og þar er ég sammála. En snemmtæk íhlutun snýst ekki bara um að grípa inn í hjá börnum með lestrarvanda, lélegar fínhreyfingar eða grípa inn í hjá börnum með þroskaskerðingu. Snemmtæk íhlutun þarf einnig að snúa að félags- og samskiptafærni barna líka.  Í sálfræðinámi mínu sneri eitt verkefnanna um að finna og kynna sér sálfræðimeðferð sem hjálpar börnum með hegðunarvandamál. Ég hafði lesið mér til um þjálfunaraðferð eftir mann að nafni Arnold P. Goldstein og heillaðist alveg upp úr skónum. Í dag er ég orðin ART þjálfi í gegnum ART á Suðurlandi og hef verið með ART þjálfun fyrir elstu árgangana í leikskólanum í Bolungarvík.

Hvað er ART?

Agression Replacement Training  (ART) er  þríhliða þjálfunarmeðferð byggð á hugrænni atferlismótun og var þróuð með það að markmiði að taka á tilfinninga- og hegðunarvanda fólks. ART samanstendur af félagsfærniþjálfun, sjálfsstjórn og eflingu siðferðis (Glick og Gibbs, 2011). Í félagsfærni þjálfun er nemendum kennd jákvæð samskipti í daglegu lífi og unnir er kerfisbundið með tiltekin atriði, í sjálfsstjórn læra nemendur að bregðast við árekstrum með því að þekkja hvað kveikir reiði þeirra, hvað gerist innra með þeim þegar þau reiðast, hvernig þau eru vön að bregðast við og hvaða afleiðingar það hefur. Efling siðferðis gefur nemendum færi á að rökræða undir stjrón þjálfara út frá sögum þar sem fyrir koma siðferðisleg álitamál, hér er notast við sögur úr reynsluheim barnanna meðal annars. Þessar þjálfunarmeðferðir einar og sér hafa sýnt fram á skammtímaáhrif á hegðunarvanda en ef settar eru þessar þrjár aðferðir saman þá myndu þær vinna saman og styrkja hver aðra. (Goldstein og Click, 1994; Goldstein og McGinnis, 2003; Glick og Gibbs, 2011).

ART á Íslandi

ART á Suðurlandi  er verkefni sem hófst árið 2006 en er í dag undir umsjón Samtaka sunnlenskra sveitafélaga. Verkefnið var hugsað sem meðferðarúrræði ætluð börnum á grunnskólaaldri með hegðunar- og tilfinningavanda og svo sem forvarnarstarf þar sem ART þjálfun var notuð í leik- og grunnskólum á Suðurlandi. Gerð var úttekt á verkefninu af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands þar sem gert var „Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins“. Nokkrar af helstu niðurstöðum þeirrar skýrslu voru að Art þjálfunarmeðferðin kemur til móts við skort á úrræðum á fleiru en einu sviði. Annarsvegar sem meðferðarúrræði fyrir börn sem glíma við alvarleg tilfinninga- og hegðunarvandkvæði og hins vegar sem tæki til að halda uppi almennum aga og góðum samskiptum í skólastarfinu. Áhrifin af ART komi ekki aðeins fram í bættum lífsgæðum barna heldur líka fjölskyldunnar og annarra í þeirra nærumhverfi.

Ekki bara börnin, foreldrar líka

ART þjálfunin virkar líka vel af því að foreldrar taka mikinn þátt og eru stór þáttur í þeim árangri sem barnið nær í að yfirfæra þjálfun í daglegu lífi barnsins. Það var sú sýn á verkefnið að mati verkefnastjóra ART á Suðurlandi að það væri ákjósanlegt að öll börn færu einu sinni í gegnum ART þjálfunarferli á hverju skólastigi fyrir sig,  einu sinni á leikskólastigi, yngsta stig, miðstigi og unglingastig (Andrea G. Torfadóttir og Hrefna Guðmundsdóttir, 2009).

Það er svo margt í boði

Hér hef ég talað um eina aðferð sem flokkast geti undir snemmtæka íhlutun ungra barna og ungmenna. Skólastarf um allt land er að prófa sig áfram með að beita mismunandi aðferðum eða hugmyndafræði og er markmiðið alltaf að þroska nemendur, auka ábyrgðakennd, sjálfsaga og bæta hegðun, samskipti og félagsfærni. Aðrar aðferðir eru til að mynda Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga, PMT – foreldrafærni, MST fjölþáttameðferð, Hjallastefnan, SMT skólafærni, Jákvæður agi og SOS uppeldisþjálfun svo dæmi séu nefnd. Ég tel að þetta sé nokkuð sem megi hugsa nánar út í. Að börn fái snemma að læra góð samskipti í ólíkum barnahóp og fái tækifæri til að efla félagsfærni gæti minnkað hegðunarvanda barna í framtíðinni. Bara með því að innleiða ART í skólanámskrá leikskólans þrisvar sinnum í viku eykur það líkur á heilbrigðari félags- og siðgæðisþroska. Stökkið úr leikskóla upp í grunnskóla er gríðarlega mikið, áreitið og verklag er öðruvísi. Börn sem koma upp í grunnskóla með lélega félagsfærni eiga eðlilega erfiðara framdráttar en önnur börn. Með Art þjálfun í leikskóla er verið að styrkja börnin og fylla á verkfærakistu þeirra fyrir hverslags verkefni framtíðarinnar. Það er góð forvörn að fjárfesta í börnunum okkar á þennan hátt. Það eitt getur leitt til þess að „stóru málunum“ fækki í skólunum og félagsþjónustunni. Fjárfestum í börnunum okkar til framtíðar. Setjum X við D á kjördag

Kristín Ósk Jónsdóttir

Höfundur skipar 4. sætið á lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík

DEILA