Arnarlax: stóraukin framlegð og hagnaður

Framlegð af hverju framleiddu kg af eldislaxi hjá Arnarlax jókst úr 0,15 evrum í 2,82 evrur á fyrsta ársfjórðungi 2022 borið saman við sama ársfjórðung síðasta árs. Þá var slátrað 3400 tonnum af laxi á fyrstu þremur mánuðum ársins og jókst magnið um 900 tonn frá sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í kynningu á afkomu fyrirtækisins fyrr í dag. Það er einkum þrennt sem skýrir þennan mikla afkomubata. Í fyrsta lagi að kostnaður hefur reynst stöðugur og ekki hækkað, í öðru lagi bætt nýting og aukin gæði framleiðslunnar og loks að verð á eldislaxi hefur hækkað.

Tekjur fyrirtækisins voru 37,21 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungnum, sem jafngildir 5,2 milljörðum króna og meira en tvöfölduðust frá sama tímabili í fyrra þegar tekjurnar voru 17,4 milljónir evra. Hagnaður eftir afskriftir nam 9.5 milljónum evra eða liðlega 1,3 milljarðar króna.

Öflugri aðfangakeðja mun skila aukinni uppskeru

Arnarlax jók við starfsemi sína á Suðurlandi í vetur með kaupum á seiðastöð Fjallalax og í janúar sl. fékk stöðin 100 tonna rekstrarleyfi fyrir seiða- og mateldi á lax og bleikju. Þá hyggst félagið taka í notkun seiðaeldisstöð við Laxabraut í Þorlákshöfn síðar á árinu, og hefur fengist rekstrarleyfi frá Matvælastofnun fyrir alls 900 tonna seiðaeldi þar. Með tilkomu þessara tveggja seiðaeldisstöðva má búast við að uppskera fyrirtækisins aukist um u.þ.b. 7.000 tonn á ársgrundvelli þegar fullum afköstum hefur verið náð. Þetta mun bæta nýtingu núverandi eldisleyfa fyrirtækisins og styðja við undirbúning nýrra svæða og leyfa. 

Björn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon og Arnarlax:

„Áhersla okkar á að halda áfram að bæta líffræðilega þætti framleiðslunnar í sjónum, sér í lagi til að minnka áhættu yfir vetrarmánuðina, virðist hafa skilað tilætluðum árangri. Afföll eru orðin mun minni jafnvel þó við höfum lent í áskorunum á tímabilinu á stöku stað. Þetta eru spennandi tímar hjá fyrirtækinu og ég hlakka til að upplýsa um margt sem er í pípunum hjá okkur. Við njótum þess að vera búin að staðsetja vörumerkið okkar á réttan hátt á sterkustu mörkuðunum. Kjarni vörumerkisins liggur í gæðum framleiðslunnar, upprunans og þeirri miklu vinnu sem við höfum lagt í markaðs- og sölumálin á síðustu misserum“

DEILA