Arnarlax: skattspor Arnarlax var 1 milljarður í fyrra

Höfuðstöðvar Arnarlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skattspor Arnarlax var tæplega 1 milljarður (998 milljónir) í fyrra sem er hækkun um 50% á tveimur árum en árið 2019 nam skattspor fyrirtækisins 644 milljónum króna. Þetta kemur fram í greiningu PWC endurskoðunarfyrirtækisins sem hefur reiknað út árlegt skattspor Arnarlax frá árinu 2016. Til skattsporsins teljast allir þeir skattar og gjöld til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða sem greiddir eru vegna starfseminnar, bæði fyrirtækisins og starfsfólksins.

Í nýútgefinni samfélagsskýrslu Arnarlax kemur fram að hærri gjöld sem fyrirtækið greiðir til ríkis og sveitarfélaga felist meðal annars í hækkun skatta og gjalda vegna launagreiðslna, hækkun á gjaldi í umhverfissjóð, hækkun á auðlindagjaldi og aflagjöldum.

Umfangsmikil starfsemi á Vestfjörðum
Starfssvæði Arnarlax eru nú fjögur, Vesturbyggð, Tálknafjarðahreppur á Vestfjörðum og svo Ölfus og Grímsnes, en fyrirtækið fjárfesti í tveimur eldisstöðvum á Suðurlandi á tímabilinu. Samkvæmt skýrslunni starfaði 13% af áætluðu vinnuafli sveitarfélagana tveggja á Vestfjörðum, Vesturbyggð og Tálknafjarðahreppi, hjá Arnarlaxi á árinu 2021. Að auki starfa margir íbúar sveitarfélaganna við afleidd störf sem skapast hafa vegna reksturs Arnarlax. 

Sex milljarðar runnu með ólíkum hætti til samfélagsins í fyrra
Framlag Arnarlax til samfélagsins er með ýmsum hætti, meðal annars með greiðslu launa og tengdra gjalda, aðkeyptri þjónustu, vörukaupum, greiðslu fjármagnsgjalda, styrkjum, auk greiðslu skatta og gjalda til yfirvalda. Í samfélagsskýrslunni er einnig tekið saman hversu stór hluti af veltu fyrirtækisins fari í verðmætasköpun til samfélagsins og voru það tæpir sex milljarðar króna á síðasta ári. Þar af var launakostnaður 1.542 m.kr, greiðslur til innlendra þjónustuaðila 3.000 m.kr., vörukaup af íslenskum fyrirtækjum 360 m.kr, vaxtagreiðslur námu 16,9 m.kr og svo skattar og gjöld 998 m.kr.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax: „Okkar fyrsta uppskera kom síðari hluta árs 2016 og við erum stolt af því hversu mikið fyrirtækið hefur vaxið á þessum örfáu árum. Okkar starfsemi hefur að miklu leyti farið fram á Vestfjörðum og það er gaman að sjá þessar tölur um hversu miklu starfsemi okkar hefur skilað til samfélagsins þar. Íbúar suðurfjarða Vestfjarða eru einungis um 1.200 talsins svo það liggur í þessum tölum að verðmætasköpunin á hvern íbúa á þessu svæði er með því besta sem gerist á landinu.“

DEILA