Tálknafjörður: stefnubreyting varðandi byggðakvótann – vilja afnema vinnsluskyldu

Tálknafjörður.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ákvað á fundi sínum fyrirhelgina að falla frá fyrri samþykkt varðandi ráðstöfun byggðakvótans og ákvað að sækja um til ráðuneytisins að vinnsluskylda á byggðakvótanum verði felld niður.

Viku fyrr hafði sveitarstjórnin ákveðið að sækja ekki um sérreglur um úthlutun byggðakvótans þar sem ráðherra hafði ítrekað gengið gegn óskum sveitarstjórnar um niðurfellingu á vinnsluskyldunni sem heimilar útgerðum aðselja aflann á markaði.

Í bókun sveitarstjórnar nú segir að engin hefðbundin fiskvinnsla sé rekin á Tálknafirði. Því sé full ástæða til að falla frá
ákvæðum um vinnsluskyldu á þeim afla sem þar er landað sem byggðakvóta og þar með gefa útgerðaraðilum tök á því að fá sem best verð fyrir veiddan fisk.

„Slíkt er líklegt til að efla í senn atvinnu- og mannlíf í byggðalaginu. Jafnframt byggir tillagan á því mati að mikilvægt sé fyrir atvinnulíf á Tálknafirði að sem flestir útgerðaraðilar fái tækifæri til að fá úthlutaðan byggðakvóta og því er lagt til að veiðireynsla frá fyrra ári gildi 50% í úthlutun en 50% skiptist jafnt á þá aðila sem lönduðu í Tálknafjarðarhöfn á síðasta fiskveiðiári. Þá er mikilvægt að halda því til haga að tillagan útilokar ekki að útgerð sem landar í Tálknafjarðarhöfn geti gert vinnslusamning við vinnslur í nágrannasveitarfélögum Tálknafjarðarhrepps.“

Sveitarstjórnin segir í bókun sinni rétt að benda á að fordæmi eru fyrir því ráðuneytið hafi samþykkt sérreglur fyrir önnur byggðalög þar sem vinnsluskylda hefur verið felld niður.

DEILA