Sýn fær fjarskiptalóð á Suðureyri

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt erindi um stofnun fjarskiptalóðar í landi Kleifar í Súgandafirði til handa Sýn hf fyrir fjarskiptamöstur fyrirtækisins. Fyrir eru tækjahús og fjarskiptamastur Ríkisútvarpsins (RÚV) sem þarna hafa
lengi staðið og veita íbúum í Súgandafirði útvarps-, sjónvarps- og farsímaþjónustu. Einnig eru fyrir tækjaskýli Sýnar hf. en Sýn nýtir eigið tækjahús fyrir tækjabúnað sinn og leigir aðstöðu af RÚV fyrir loftnet vegna þjónustu sinnar. Vegna samvinnu fjarskiptafélaga veita önnur fjarskiptafélög einnig þjónustu frá núverandi mannvirkjum. Góð sátt er um þessa
tilhögun og eru þessi mannvirki nægileg fyrir þá þjónustu sem veitt er.

Tilgangur lóðastofnunarinnar er að tryggja réttindi fjarskiptafélaganna til starfsemi sinnar á þessum stað. Gert er ráð fyrir því að eignarhaldið verði á höndum Ísafjarðarbæjar, sem leigi fjarskiptafélögunum lóðirnar til fjarskiptareksturs til langs tíma. Mannvirki RÚV eru öll á fjarskiptalóð 1 og mannvirki Sýnar hf eru á fjarskiptalóð 2. Aðkoma að lóðunum er sameiginleg.

Fulltrúar RÚV og Sýnar hafa samþykkt þessa útfærslu og er umsóknin í nafni þeirra beggja. Markmiðið er að tryggja umgjörð fjarskiptaþjónustu fyrir íbúa á Súgandafirði. Ekki er gert ráð fyrir breytingum eða viðbótum á mannvirkjum að öðru leyti en því að loftnetum kann að verða bætt við eða skipt út í mastrinu.

DEILA