Strandabyggð: boða listaframboð

Hópur íbúa í Strandabyggð boðar framboð til næstu sveitarstjórnarkosninga í Strandabyggð.

Segir í fréttatilkynningu frá hópnum að það sé sannfæring þess „að Strandabyggð hafi mikla þörf fyrir pólitíska endurnýjun, ný sjónarmið, nýja stjórnsýsluhætti og nýtt fólk í sveitarstjórn.“

Nýtt fólk- laust við sérhagsmunagæslu og spillingu

Ennfremur:

„Við tökum þeirri áskorun og stofnum nýjan lista, nýtt afl. Framundan eru gefandi og spennandi tímar í Strandabyggð sem munu snúast um uppstokkun atvinnutækifæra, endurskipulagningu á tekjumöguleikum og fjárhag
sveitarfélagsins, uppbyggingu íbúða- og iðnaðarlóða, nýtt aðalskipulag, áframhaldandi eflingu menntunar og sameiningu sveitarfélaga svo fátt eitt sé talið.
Framundan er líka mjög gagnrýnin umræða um heilbrigða stjórnsýslu, sem laus á að vera við sérhagsmunagæslu og spillingu, en leggur þess í stað áherslu á heildarhagsmuni sveitarfélagsins og fólksins sem í því býr. Okkar trú er að þá vegferð sé ekki hægt að hefja nema með nýju fólki. Á næstu dögum og vikum munum við upplýsa um þá einstaklinga sem standa að baki þessum nýja lista og leggja fyrir íbúa helstu áherslumál og markmið okkar.“

Segir að lokum að komin sé fram valkostur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor sem setur hagsmuni allra íbúa í forgrunn. Valkostur sem íbúar geti kosið og kallað fram nauðsynlegar breytingar í Strandabyggð ef vilji er fyrir hendi.

Undir fréttatilkynninguna ritar Þorgeir Pálsson, fyrrvarnadi sveitarstjóri í Strandabyggð.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Strandabyggð kom ekki fram neinn listi og fóru fram persónubundnar kosningar þar sem kosnir voru 5 aðalmenn í sveitarstjórn og fimm til vara.

DEILA