Sigmundur Þorkelsson hestamaður er íþróttamaður Bolungarvíkur 2021

Kosið var um íþróttamann ársins á fundi fræðslumála- og æskulýðsráðs í Bolungarvík þar sem aðal- og varamenn komu saman og greiddu atkvæði. Flest atkvæði fékk Sigmundur Þorkelsson og hlýtur hann útnefninguna íþróttamaður Bolungarvíkur árið 2021.

Sigmundur hefur stundað hestamennsku frá unglingsaldri og síðastliðið sumar keppti hann á Hestamóti Storms að Söndum í Dýrafirði, þar vann hann fyrsta sæti í B-flokki gæðinga, annað sæti í A-flokki gæðinga auk þess að vera með glæsilegasta hest mótsins. Hann gegnir einnig mikilvægu hlutverki í uppbyggingu hestaíþrótta í Bolungarvík.

Sérstaka viðurkenningu fær Hrund Karlsdóttir þjálfari sunddeildar Ungmennafélags Bolungarvíkur. En hún fær viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starfs í uppbyggingar á sunddeild UMFB. Metnaður Hrundar og elja gagnvart árangri iðkenda sinna og deildarinnar í heild er mikil og ómetanleg, Hrund hefur sinnt starfi sínu af kostgæfni og leggur sig fram að aðstoða iðkendur við að ná sínum markmiðum. Sunddeild UMFB átti í vetur í fyrsta sinn í 7 ár fulltrúa á Íslandsmeistaramóti Sundsambands Íslands ásamt því að eiga stóran og flottan hóp fulltrúa á Aldursflokkameistaramóti Íslands. Sunddeildin hefur getið sér gott orð í sundheiminum og er það ekki síst Hrund að þakka sem og sundiðkendum deildarinnar.

Aðrir sem fá viðurkenningu frá sínu íþróttafélagi eru Gunnar Egill Gunnarsson fyrir sund, Valdís Rós Þorseinsdóttir fyrir sund, Katla Salome Hagbarðsdóttir fyrir körfubolta, Jóhanna Harðardóttir fyrir körfubolta, Kristín Harðardóttir fyrir körfubolta, Guðmundur Páll Einarsson fyrir fótbolta.

Vegna Covid samkomutakmarkana verður ekki haldið hóf í ár en íþróttamenn fá sendar viðurkenningar heim til sín og eru hvattir til að fagna með fjölskyldu og vinum.

Fræðslumála- og æskulýðsráð óskar íþróttafólki kærlega til hamingju með árangurinn.

DEILA