Reykhólar: 60 m.kr. framkvæmdir við Grettislaug

Grettislaug.

Á þessu ári verður hafst handa við stórfelldar endurbætur á Grettislaug á Reykhólum. Framkvæmdirnar voru á dagskrá á síðasta ári en var frestað til þessa árs þar sem undirbúningur tók lengri tíma en áformað var.

Sundlaugin er frá 1940 og úttekt leiddi i ljós að laugin þarfnaðist verulegra útbóta. Endurbótunum mun fylgja að rekstrarkostnaður lækkar umtalsvert.

Til framkvæmdanna er ráðstafað 60 m.kr. á þessu ári.

Ingibjörg B. Erlingsdóttir, sveitarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að áætlunin væri að endurnýja núna allt lagnakerfi laugarinnar, bakskolun, klórskömmtun og blöndun.

Seinna koma endurbætur á húsnæði og lauginni sjálfri.

Grettislaug nýti jarðhita sem er við laugina. Laugin hefur lengi verið vinsæl af ferðamönnum ekki síður en heimamönnum.

DEILA