Rauði krossinn Ísafirði: fatagámarnir fuku

Fatagámar Rauða krossins á Ísafirði fuku í óveðrinu á aðfararnótt fimmtudagsins. Gámarnir sem voru við rækjuverksmiðjuna Kampa tókust á loft og skemmdust.

Guðrún Dagný Einarsdóttir telur að sem betur fer hafi gámarnir ekki valdið skaða en hins vegar verði að koma þeim í viðgerð og meðan á henni stendur verður ekki hægt að setja föt í gámana eins og verið hefur.

Þá segir Guðrún Dagný að ekki sé ljóst hvar gámunum verði komið fyrir þegar að því kemur eftir viðgerðina og biður hún velunnara Rauða krossins að sýna því skilning og þolinmæði að ekki verði hægt að taka við fatagjöfum meðan þetta ástand varir.

Upplýsingum verði komið á framfæri um gámana strax og málin skýrast.