Látrabjarg: unnið að stjórnunar- og verndaráætlun

Látrabjarg. Mynd: Ferðafélag Íslands.

Á vegum Umhverfisstofnunar er hafin vinna að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Látrabjarg. Þann 2. mars 2021 var Látrabjarg friðlýst. Samstarfshópur um verkefnið hefur hafið störf. Í hópnum eru tveir fulltrúar Umhverfisstofnunar, tveir fulltrúar landeigenda og fulltrúi Vesturbyggðar.

Aðalheiður Pálmadóttir, fulltrúi landeigenda
Edda Kristín Eiríksdóttir, fulltrúi frá Umhverfisstofnun
Geir Gestsson, fulltrúi Vesturbyggðar
Jón Pétursson, fulltrúi landeigenda
Þórdís Björt Sigþórsdóttir, fulltrúi frá Umhverfisstofnun

Samstarfshópurinn hefur samþykkt verkáætun og stefnt er að áætlunin verði sett í auglýsingu sumarið 2022 og tilbúin í september 2022.

Næsta skref hópsins er að gera svokallaða hagsmunaaðilagreiningu og að henni fenginni verður hægt að meta betur hvaða aðilum verður fundað sérstaklega með. Á fyrsta fundi hópsins var sérstaklega rætt um þyrluflug og að funda sérstaklega með landeigendum sem nytja Látrabjarg til eggjatöku.

Friðlandið Látrabjarg samræmist verndarflokki IV samkvæmt flokkunarkerfi IUCN (Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna).
Við ákvörðun um friðlýsingu þessa var höfð hliðsjón af samningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979), sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993, samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeiro 1992), sbr. Stjórnartíðindi C 11/1995 og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971), sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978.
Friðlandið er 37 ferkm að stærð.

Áætluninni er ætlað að fjalla um markmið verndunar svæðisins og hvernig stefnt skuli að því að viðhalda verndargildi þess. Umhverfisstofnun hefur unnið stefnumótun um gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði og verður hún höfð til hliðsjónar við gerð stjórnunar- og verndaráætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að gildistími hennar verði 10 ár og að með fylgi aðgerðaáætlun til 3 ára. Umhverfisstofnun, sveitarfélagi og landeigendum verður þó heimilt að taka ákvörðun um endurskoðun áætlunarinnar, verði þess þörf, áður en gildistíminn er liðinn

DEILA