Ísafjarðarbær: kaupir forgangsorku fyrir sundlaugina á Þingeyri

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum á mánudaginn að kaupa forgangsorku fyrir sundlaugina á Þingeyri og fól bæjarstjóra að flýta skoðun á orkusparandi aðgerðum fyrir sundlaugina á Þingeyri.

Ísafjarðarbær er með samning við Orkubú Vestfjarða um orkukaup fyrir sundlaugina. Um er að ræða ótrygga raforku sem keypt er í gegnum Landsvirkjun og er ódýrari per kWh en ef orkan væri keypt á almennum markaði. Við endurnýjun samningsins árið 2013 var gerð sú breyting á kjörum orkunnar frá Landsvirkjun að heimilt er að skerða orkuafhendingu um allt að 120 daga á ári.

Landsvirkjun þarf skerða afgangsorku til stórnotenda og á skerðingin að hefjast um komandi mánaðarmót. Þessi skerðing mun hafa þau áhrif á Ísafjarðarbæ að ekki verður hægt að fá heitt vatn í sundlaugina á Þingeyri.

Í minnisblaði sviðsstjóra íþrótta- og tómstundaráðs til bæjarráðs segir að bærinn hafi á sl. 18 mánuðum, frá júlí 2020 til desember 2021, greitt samtals kr. 13.598.929 fyrir ótryggu raforkuna fyrir sundlaugina á Þingeyri, að meðaltali kr. 755.496 á mánuði.

„Ef reikningar frá Orkubúi Vestfjarða sl. 18 mánaða eru skoðaðir út frá samningsverði Orku Náttúrunnar hefði Ísafjarðarbær greitt kr. 17.989.984 eða kr. 999.444 á mánuði. Með því að segja upp samningnum við Orkubú Vestfjarða, um kaup á ótryggu raforkunni, og kaupa orkuna á almennum markaði myndi orkukostnaðurinn fyrir sundlaugina á Þingeyri hækka um kr. 250.000 á mánuði eða um kr. 3.000.000 á ári. Miðast þessar upphæðir við verð og forsendur sl. 18 mánaða.“

Sviðsstjórinn lagði tvo kosti fyrir bæjarráðið. Annaðhvort að una þessari skerðingu, loka sundlauginni á Þingeyri
á meðan og bíða eftir að henni ljúki. Eða segja upp samningnum við Orkubú Vestfjarða og kaupa orku á almennum markaði.

Bæjarráðið valdi að kaupa forgangsorku.