Fasteignamat: mest hækkun á landinu í Bolungavík – 30,7% hækkun íbúðarmats

Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Þjóðskrá Íslands hefur birt upplýsingar um fasteignamat 2022. Fasteignamat íbúða hækkar mest í Bolungavíkurkaupstað en þar hækkar íbúðarmatið um 30,7%, í Kjósarhreppi um 29,4% og í Ísafjarðarbæ um 23,6%.

Fasteignamat íbúða hækkar um 8,9% á höfuðborgarsvæðinu á meðan hækkunin er 5,2% á landsbyggðinni. Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,4% frá yfirstandandi ári og verður 10.340 milljarðar króna, samkvæmt  fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2022. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 2,1% á landinu öllu.

Fasteignamatið hækkar langmest á Vestfjörðum eða um 16,3% og er það eini landshlutinn þar sem hækkunin er meiri en 10%. Á höfuðborgarsvæðinu er hækkunin 8% eða aðeins helmingurinn af hækkuninni á Vestfjörðum.

Á vef Bolungavíkurkaupstaðar er umfjöllun um þessa miklu hækkun matsins og talið líklegt að þessi hækkun í Bolungarvík og á Ísafirði sé í tengslum við fyrirhugaða atvinnuuppbyggingu í fiskeldi.  

DEILA