Bolungavík: samningar um aflagjöld við Arctic Fish

Á gamlársdag voru undirritaðir samningar til 7 ára milli Bolungavíkurkaupstaðar og Arctic Fish um aflagjöld af eldislaxi.

Þá voru undiritaðir samningar milli sveitarfélagsins, Örnu ehf, Fiskmarkað Vestfjarða ehf og Arctic Odda ehf um fyrirhugaða lóðaúthlutun við Brimbrjótsgötu. Í stað fiskmarkaðshússins nýja sem Fiskmarkaðurinn hefur selt til Arctic Fish fær Fiskmarkaðurinn aðra lóð við hina fyrri og hyggst þar reisa nýtt hús fyrir starfsemi sína. Sú lóð var í eigu Örnu og samdist milli fyrirtækisins og bæjarins að bærinn fengi lóðina og mun i staðinn láta stækka lóð Örnu neðan við Íshúsið með landfyllingu.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að af hálfu bæjarins væri lögð á það áhersla að tryggja Fiskmarkaðnum nýja lóð svo uppbygging sjávarútvegsins í bæjarfélaginu myndi ekki truflast af laxeldinu.

Þá væri mikilvægt að búið væri að semja til langs tíma um aflagöld fyrir eldisfiskinn og í þriðja lagi sagði Jón Páll að bæjaryfirvöld liti svo á að þetta væri eitt skref í uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Það væri sameiginlegt verkefni Vestfirðinga til þess að styrkja fjórðunginn. Uppbygging fiskeldis væri tækifæri fyrir okkur öll.

DEILA