Bolungavík: fiskeldinu fylgja miklar fjárfestingar sveitarfélagsins

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að tilkoma laxasláturhúss í Bolungavík verði til þess að sveitarfélagið muni ráðast í miklar fjárfestingar til þess að mæta þörfum laxeldisins m.a. á hafnarsvæðinu.

„Það er mikilvægt að fjármagn sem fiskeldisfyrirtækin greiða í Fiskeldissjóð renni til viðkomandi sveitarfélaga til þess að standa undir þesari fjárfestingu.“

Á síðasta ári úthlutaði sjóðurinn styrkjum að fjárhæð 105 m.kr. Samkvæmt gögnum sem lögð voru fram á Fjórðungsþingi Vestfirðinga síðastliðið haust munu gjöld fiskeldisfyrirtækjanna í Fiskeldissjóð vaxa á næstu árum verulega með auknu sjókvíaeldi og gætu numið 1,4 milljarði króna á ári eftir 5 ár.

Gjaldið var tekið upp með lögum frá 2019 og er það miðað við verð á eldisfiski á erlendum mörkuðum. Hlutverk sjóðsins er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. 

Úthlutunin í fyrrahaust olli mikil óánægju sem kom greinilega fram á fjórðungsþinginu. Stærsta hluta gjaldsins greiða fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum en stjórn sjóðsins úthlutaði meginhluta teknanna til verkefna á Austurlandi. Gerði Fjórðungsþingið harðorða ályktun um gjaldtöku í sjókvíaeldi. Vill Fjórðungsþingið að Fiskeldissjóður verði lagður niður og að fiskeldisgjaldið renni beint til innviðauppbyggingar þar sem eldið er stundað.

DEILA