Svona var Kómedíuleikhúsárið 2021

Enn eitt árið er nú að kveðja og því við hæfi að lýta aðeins yfir senu ársins í Kómedíuleikhúsinu, atvinnuleikhúsi Vestfjarða. Víst var árið okkur, ja líklega öllum, soldið skrítið. Þetta Kóvítans er farið að vera full langdregið í okkar tilveru og mikið sem okkur hlakkar til þegar veiran verður komin á sama stað og Karíus og Baktus. Já, eitthvað langt, langt, á haf út. Víst hefur Kóvítið haft mikil áhirf á hina lifandi list og ekki síst okkur í leikhúsinu. Því miður hefur ríkisapparatið enn ekki komið með nein úrræði til handa sjálfstæðum leikhúsum á landinu og tekur okkur það mjög sárt. En við ætlum ekki að dvelja of lengi við veirulífið heldur frekar fagna því sem tókst þó að gjöra á hinu kómíska ári 2021.

20

Það var mikil ástæða til að taka vel á móti nýja árinu strax í upphafi árs. Því þá urðum við tveggja áratuga. Já, ótrúlegt en satt Kómedíuleikhúsið hóf starfsemi sína á Vestfjörðum árið 2001 og síðan eru liðin mörg ár einsog segir í söngkvæðinu. Í tilefni hinna tveggja kómísku áratuga gáfum við út sérstakt afmælisrit. Höfðum við samband við samstarfsaðila í gegnum árin sem og gaggara og fleiri huxuði til að rita dulitla kómíska hugleiðingu í ritið. Einnig var saga Kómedíuleikhússins rakin í stuttu máli sem og verkefnalisti okkar birtur.

Afmælisritinu var dreift til velunnara leikhússins og á marga fleiri. Vel var ritinu greinilega tekið því það er uppurið hjá okkur.

49

Hið kómíska gjörðist 2020 að við fengum í fyrsta sinn síðan 2002, styrk frá Leiklistarráði. Styrkurinn var til að setja upp nýtt barnaleikrit byggt á hinum vinsælu Bakkabræðrasögum. Upphaflega stóð til að frumsýna sama ár en það var sama hvaða frumsýningardag við settum við þurftum ávallt að finna nýjan sökum, já þið vitið af hverju. Frumsýningardraumar Bakkabræðra héldu áfram árið 2021 en loks 22. maí náðum við að frumsýna. Leikritið Bakkabræður er 49. verkefni okkar og við hæfi var að hefja leik í okkar eigin leikhúsi, í Haukadal Dýrafirði. Einsog oft áður var um einleik að ræða en samt komu fjöldamagir listamenn að sýningunni. Elfar Logi Hannesson og Sigurþór A. Heimisson sömdu leikinn í sameiningu. Sá fyrrnefndi var að vanda á senunni en Sigurþór leikstýrði. Bakkabræður er brúðleiksýning og hönnuður brúðanna sem og leikmyndar var Marsibil G. Kristjándóttir. Hinar þekktu Bakkabræðravísur Jóhannesar úr Kötlum eru í sýningunni. Björn Thoroddsen samdi tónlistina en lögin í sýningunni syngur Sigrún Hjálmtýsdóttir eða Diddú.

Bakkabræður voru sýndir í Haukadalnum allt sumarið og um haustið var farið í leikferð. Fyrst í Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði og þaðan var skundað á brúðulistahátíðina HIP á Hvammstanga.

33

Annað árið í röð stóðum við fyrir sérstöku sumarleikhúsi í leikhúsinu okkar í Haukadal. Leikurinn hófst 11. maí með sýningu á verðlaunaleiknum Gísli Súrsson. Tvær aðrar sýningar okkar voru á fjölunum í Haukadalnum í sumar, Gísli á Uppsölum og nýjasta leikurinn okkar Bakkabræður. Við fengum einnig nokkrar gestasýningar til okkar en í það heila voru sýningar sumarleikhússins alls 33 talsins. Gaman er að geta þess að það var einmitt í sumarleihúsinu sem Gísli Súrsson var sýndur í 350 sinn og nafni hans á Uppsölum fór í eitt hundraðið.

Sumarleikhús Kómedíuleikhússins er sannlega komið til að vera og erum við þegar byrjuð að leggja drög að sumarleikhúsinu 2022. Það var sérstaklega kómískt.

54

Ef allt hefði verið eðlilegt á árinu sem er að líða þá hefðum við líklega sýnt um 100 sýningar. Sýningarfjöldi ársins er að þessu sinni aðeins 54 sýningar og segir það eigilega allt sem segja þarf um ástandið. Segjum því ekkert meir um þann kvilla.

Árið var um margt gott. 10. febrúar var til að mynda endurnýjaður samstarfssamingur við okkar góða bæ, Ísafjarðarbæ. Ástæða er til að þakka fyrir hið frábæra samstarf sem við höfum átt við okkar bæ í gegnum áratugina tvo og hlökkum við til áframhaldandi samstarfs. Faraldurinn fékk okkur líka til að huxa með opin haus og finna nýjar leiðir til að styrkja starfsemina. Við höfum í gegnum tíðina gefið út fjölmargar hljóðbækur og höfum þá ávallt þurft að fara af bæ til þess starfa. Því ákváðum við í einu sýningarstoppinu að koma á fót okkar eigin hljóðveri í Leiklistarmiðstöð okkar á Þingeyri. Við sendum inn umsókn til byggðaverkefnissins Öll vötn til Dýrafjarðar til að geta gert þetta soldið almennilega. Viti allir til við fengum myndarlegan styrk til að koma upp okkar eigin hljóðveri og erum við sérlega þakklát fyrir það. Við höfum nú þegar tekið Kómedíuleikhús hljóðverið í notkun og óhætt er að segja að vel hafi til tekist með verkið. Lengi hafði okkur langað til að vera með hlaðvarp um leikhús og nýja hljóðverið uppfyllti nú þann draum okkar. Leikhúsmál nefnist hlaðvarp Kómedíuleikhússins og er þar fjallað um leiklistina á breiðum grunni. Nú þegar hafa nokkrir þættir verið settir í loftið en þeir eru aðengilegir á öllum hlaðvarpsveitum má þar nefna á Spotify.

Margt fleira mætti nefna af Kómedíuverkum ársins. Við stóðum m.a. fyrir raddnámskeiði með Þórey Sigþórsdóttur leikkonu sem mæltist einstaklega vel fyrir enda var það fullsetið. Mjög líklegt er að áframhald verði á námskeiðahaldi á okkar vegum á komandi kómísku ári.

Að lokum viljum við í Kómedíuleikhúsinu þakka áhorfendum um land allt fyrir komuna í leikhúsið á árinu sem er að líða. Án áhorfenda ekkert leikhús. Einnig segjum við húrra margfalt til allra þeirra er hafa stutt okkur í ár og í gegnum áratugina tvo. Án ykkar væri Kómedían heldur klén.

Megi Kómedían vera með okkur öllum og hlökum til endurfunda í leikhúsinu á komandi kómísku ári. Þess óskar Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, Haukadal Dýrafirði.

DEILA