Suðureyri: 540 m.kr. kostnaður við hafnargerð við Brjótinn

Lagt var fram fyrir jól minnisblað í Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar frá Kjartani Elíassyni, verkfræðingi á mannvirkjasviði Vegagerðarinnar, dags. 16. desember 2021, um áætlaðan kostnað vegna hafnargerðar á uppfyllingu við Brjótinn á Suðureyri.

Kostnaðartölur ná til framkvæmda sem geta hlotið styrk úr hafnabótasjóði , þ.e. stálþilskantur með steyptri þekju, vatni og rafmagni, viðgerðir á brjótnum og dýpkun. Ekki er lagt mat á landfyllingar utan við það svæði sem getur hlotið ríkisstyrk.

Gert er ráð fyrir 80 metra stálþili með hönnunardýpi -6,0 m, 60 m viðlegukanti lokaður með grjóthleðslu í báða enda. Steypt verði þekja og rafmagns- og vatnshús. Gert er ráð fyrir að farið verði í viðgerðir á Brjótnum.

Kostnaður við endurbyggingu á Brjótnum er 108 m.kr. Hafnabótasjóður styrkir 75% af þeim kostnaði.

Heildarkostnaður við byggingu stálþilskantsins með þekju er um 432 m.kr. Sú framkvæmd er nýbygging og fæst 60% styrkur úr hafnabótasjóði.

Heildarkostnaðurinn yrði því 540 m.kr. með virðisaukaskatti.

Málinu var vísað til bæjarráðs til kynningar.

Fulltrúar frá Íslenskum verðbréfum, Fisherman, Íslandssögu og Klofningi, mættu til fundar við bæjarráð í byrjun desember, í gegnum fjarfundarbúnað, til að ræða mögulega staðsetningu sláturhúss á Suðureyri fyrir slátrun eldisfisks frá ÍS-47, og Hábrún. Kynntu þeir klasaverkefnið á Suðureyri sem nefnist Brjóturinn.

Tilgangur verkefnisins er að greina hvernig best væri að efla og tengja saman laxeldi, fiskvinnslu og ýmsa fiskeldistengda þjónustu á Suðureyri.