Strandabyggð: óska eftir viðræðum við Reykhólahrepp um sameiningu sveitarfélaganna

Niðurstaða sveitarstjórnar Strandabyggðar á fundi sínum fyrr í vikunni varðandi sameiningu sveitarfélaga var að óska eftir viðræðum við Reykhólahrepp um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga.

Fyrst var tekið fyrir erindi Tálknafjarðarhrepps um sameiningu allra sveitarfélaga á Vestfjörðum nema Ísafjarðarbæjar. Það taldi sveitarstjórn Strandabyggðar ekki raunhæft þar sem þegar lægi fyrir að bæði Bolungavík og Vesturbyggð teldu ekki tímabært að svo komnu máli að hefja viðræður um slíka sameiningu.

Þá var kynnt svar Árneshrepps við erindi Strandabyggðar um afstöðu hreppsnefndarinnar til viðræðna um sameiningu fjögurra sveitarfélaga við Strandabyggð er könnuð. Þar er um að ræða Árneshrepp, Kaldrananeshrepp, Reykhólahrepp, Dalabyggð og Húnaþing vestra. Í svari Árneshrepps kemur fram að hreppsnefndin telji ýmislegt standa í vegi fyrir sameiningum sveitarfélaga, hvort sem stefnt sé á litlar sameiningar eða stærri.

Þegar þetta lá fyrir samþykkti sveitarstjórn Strandabyggðar að óska eftir viðræðum við Reykhólahrepp um sameiningu sveitarfélaganna. „Lagt er til að fyrst um sinn verði um óformlegar viðræður að ræða og nágrannasveitarfélögum verði gefinn kostur á að gerast aðilar að viðræðunum, hafi þau áhuga á“ segir í bókun sveitarstjórnarinnar.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!