Strandabyggð: framkvæmdir næsta árs 83,5 m.kr.

Íþróttamiðstöðin á Hólmavík. Í Strandabyggð hefur fjölgað um 8 íbúa. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt fjárhaægsáætlun næsta árs. Niðurstöðutölur hennar eru að rekstrarafkoma A hluta er áætluð jákvæð um kr. 25.563.000.  Samanlögð afkoma A og B hluta er áætluð jákvæð um kr. 22.779.000.

Ráðist var í miklar hagræðingaraðgerðir á yfirstandandi ári til að lækka útgjöld og sérstakur fjárhagsstuðningur fékkst frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála.

 Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum verður sértækur stuðningur ráðuneytisins að upphæð 47 milljónir á árinu 2022 og 18 milljónir árið 2023.

Gert er ráð fyrir eftirfarandi framkvæmdum á árinu 2022:

  • Nýr inngangur ofan við grunnskóla 25.000.000.
  • Brunavarnir skv. úttekt og frágangur ofan við grunnskóla 4.500.000.
  • Viðhald í Íþróttamiðstöð, m.a. búningsklefar og sturtur, gluggi í sal og lagnaviðgerðir 10.100.000.
  • Leikskólalóð, undirbúningsvinna, efnisskipti og drenlagnir 6.000.000.
  • Staðarkirkjugarður, hlutdeild Strandabyggðar í efniskostnaði samkvæmt lögum 2.400.000.
  • Yfirlagnir á götur í Austurtúni og Miðtúni 2.500.000.
  • Bryggjukrani, tæki og uppsetning 10.000.000.
  • Staðarrétt nýbygging 5.000.000.
  • Fjárrétt við Krossá í Bitru 2.000.000.
  • Félagsheimili: Inngangur í kjallara, aðgengi fyrir fatlaða 1.500.000.
  • Aðal- og deiliskipulag: Samningur við Landmótun um skipulagsvinnu 4.000.000.
  • Gatnagerð Borgabraut og fleiri smáverkefni 2.000.000.
  • Slökkvilið: Búnaður og útbúnaður bíls 1.500.000.
  • Vatnsveita: Dælur og lagnir 3.000.000.
  • Fráveita: Lagnir 2.000.000.
  • Veitustofnun: Ljósleiðari 2.000.000.

Heildarkostnaður vegna framkvæmda á árinu 2022 er áætlaður kr. 83.500.000.

Tekið verður lán að upphæð kr. 35.000.000. á árinu 2022, fyrir afborgunum hjá Lánasjóði sveitarfélaga, og að öðru leyti nýtt að mestu leyti til framkvæmda.

DEILA