SKYRGÁMUR OG MEÐALALDUR BRÚÐHJÓNA

Hagstofa Íslands fylgist vel með komu jólasveinanna eins og mörgu öðru. Þar er haft fyrir satt að í gær hafi Skyrgámur komið og frásögn af honum er notuð til að koma að breytingum á meðalaldri brúðhjóna síðustu sextíu árin.


Skyrgámur, öðru nafni Skyrjarmur, er áttundi jólasveinninn. Hann var áður, samkvæmt sögnum, skelfilegt naut, gekk um brjótandi og bramlandi og étandi skyr þar til hann stóð á blístri. Kannski ekki alveg það sem fólki finnst dæmigerð hegðun miðjubarna í stórum systkinahópi.

Börn Grýlu voru mun fleiri en bara jólasveinarnir sem eru frægastir í dag og má þar til dæmis nefna Völustall, Surtlu, Pút, Skottu, Lána, Leppatusku, Þóru og Böðvar.

Leppalúði, sem sagður er faðir jólasveinanna, er þriðji eiginmaður Grýlu, en áður átti hún þá Gust og Bola. Fjölskyldumynstur Grýlu og jólasveinanna var því flókið fyrir sinn tíma þótt hin dæmigerða vísitölufjölskylda í dag tengi eflaust mun betur við fyrirkomulagið.

Í tölum Hagstofunnar um aldur brúðhjóna eftir fyrri hjúskaparstétt má sjá að meðalaldur brúða sem hafa áður verið giftar hefur hækkað úr 37 árum á árunum 1961-65 í 49 ár 2016-2020. Íslenskar konur í dag eiga þó enn nokkuð í land með að ná Grýlu í aldri á sínu þriðja hjónabandi, en samkvæmt tölum frá Ómari Ragnarssyni náði hún níuhundruð ára aldri á síðari hluta tuttugustu aldar

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!