Sameining sveitarfélaga: tillaga Tálknfirðinga fær misjafnar undirtektir

Tálknafjarðarhöfn.

Tillaga sveitarstjórnar Tálknafjarðar um könnun á sameiningu allra sveitarfélaga á Vestfjörðum annarra en Ísafjarðarbæjar fær misjafnar undirtektir.

Bæjarráð Bolungavíkurkaupstaðar telur hugmyndina ekki tímabæra og í sama streng tekur bæjarráð Vesturbyggðar. Vesturbyggð lýsir sig tilbúna í viðræður um eitt sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum sem þýðir sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar.

Hreppsnefnd Árneshrepps tók fyrir erindi Tálknfirðinga og einnig erindi frá Strandabyggð um sameiningu allra sveitarfélaga í Strandasýslu, Reykhólahrepps og Dalabyggðar. Hugmyndir Strandabyggðar hlutu ekki hljómgrunn en betur leist hreppsnefndinni á erindi Tálknfirðinga. Bókað var í fundargerð:

„Hreppsnefnd telur ýmislegt standa í vegi fyrir sameiningum sveitarfélaga hvort sem stefnt er á litlar sameingingar tveggja til þriggja sveitarfélaga eða stærri sameingingar svo sem flestra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Að lokinni umræðu þá ákvað hreppsnefnd að tillaga um óformlegar sameiningarviðræður sem sent var frá sveitarfélaginu Tálknafirði dags. 26.11. til flest allra sveitarfélaga á Vestfjörðum sé vænlegri kostur og leysi fyrri tillögu af hólmi.“

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps tók fyrir erindi Tálknafjarðarhrepps í síðustu viku en frestaði afgreiðslu þess til næsta fundar.

DEILA