Lögð fram verndaráætlun fyrir Skrúð og friðlýsing garðsins á næstu grösum

Minjastofnun hefur lagt fram drög að verndaráætlun fyrir garðinn Skrúð í Dýrafirði. Verndaráætlunin er unnin af Minjastofnun Íslands og fékk stofnunin liðsinni félagsmanna í Framkvæmdasjóði Skrúðs við að fylla inn upplýsingar um gróður, þróun og framkvæmdir í garðinum.

Í drögunum er gengið út frá því að friðlýsing garðsins verði gengin í gegn áður en verndaráætlunin verður samþykkt, en friðlýsingin er í ferli og hefur Ísafjarðarbær sent sínar athugasemdir við þau áform.

Athugasemdir við drögin óskast sendar fyrir 10. desember.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar gerði á fundi sínum í gær athugasemdir við útmörk friðlýsingar. Þau mörk sem sýnd eru á loftmynd eru ekki í samræmi við þinglýst gögn þegar garðinum var afsalað til Ísafjarðarbæjar. Vísað er til skjals nr. 418-F-000765/1997 og óskað er eftir því að umrædd mörk verði í samræmi við þinglýst gögn. Að öðru leyti gerir nefndin ekki athugasemdir við áform Minjastofnunar.

Garðyrkjufulltrúi Ísafjarðarbæjar er frekar jákvæður í umsögn sinni um drögin. Hann bendir þó á að aðstaða umsjónarmanns við garðin er léleg og má segja að sé engin. Áréttar hann þær áætlanir (hugmyndir) sem eru í gangi varðandi aðstöðuhús og bendir á að ráðning umsjónarmanns, viðgerð á gróðurhúsi og marking plantna krefjist sérstakrar fjárveitingar þannig að brautargengi þessara tillagna eru háðar því að fjármagn fáist.

Garðyrkjufulltrúinn telur forgangaverkefni að lagfæra gróðurhúsið og merkja plöntur.

Tilgangur verndaráætlunar fyrir Skrúð í Dýrafirði er að tryggja verndun garðsins á sem bestan hátt og veita leiðsögn um samspil verndunar og nýtingar, og viðhald lifandi menningarminja.

Skrúður er friðlýstur sem mannvirki en litið er á garðinn sem blandaðar minjar, þ.e. horft er til mannvirkja, skipulags garðsins og gróðurs sem heildar.

Verndaráætlunin er unnin fyrir styrk af Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og í tengslum við friðlýsingu Skrúðs.

Í inngangi að drögum að verndaráætluninni segir:

„Garðurinn Skrúður á Núpi í Dýrafirði er er einn merkasti skrúðgarður Íslands, en fyrstu trjáplönturnar voru gróðursettar í garðinum af Sigtryggi Guðlaugssyni árið 1908 . okkrar jurtkenndar plöntur höfðu þó verið gróðursettar þar strax árið 1906.

Garðurinn var notaður við kennslu í Núpsskóla og hafði jafnframt mikið aðdráttarafl sem ferðamannastaður fyrir Íslendinga sem lítil kynni höfðu haft af görðum að erlendri fyrirmynd. Garðurinn var endurreistur á árunum 1992-96
eftir að hafa fallið í órækt. Árið 2013 hlaut garðurinn hin eftirsóknarverðu ítölsku verðlaun Carlo Scarpa en þau eru veitt á sviði menningarlandslags, garðlistar og landslagsarkitektúrs. Garðurinn er þýðingarmikið minnismerki um starf
brautryðjanda í garðyrkju á Íslandi.“

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!