Jólahugvekja: Konan, sem gleymdist

Í huga okkar höfum við öll einhverjar hugmyndir um hvað geri myndir jólalegar.  Jólatré, sleði, snjór, stjarna; allt eru þetta tákn, sem við tengjum jólunum.  Myndir af fæðingu Jesúbarnsins eru gjarnan stílfærðar.  Jesúbarnið er í jötunni og María krýpur þar hjá og að baki henni stendur Jósef.  Vinstra megin á myndinni eru fjárhirðarnir og svo til hægri koma vitringarnir með gjafir sínar.  Í raun er þetta ekki mynd af fæðingunni heldur því, sem gerðist seinna.  Sjálf fæðingin er aldrei sýnd og ég man bara einu sinni eftir því að hafa séð mynd af Maríu þar sem hún gefur Jesúbarninu brjóst!

    Hvernig var fæðing Jesú?  Fyrir það fyrsta þá er ólíklegt að Jósef hafi verið viðstaddur.  Karlar voru almennt ekki viðstaddir fæðingar fyrr á tíð.  Samkvæmt jólaguðspjallinu í öðrum kafla Lúkasar þá var ekki pláss fyrir Maríu í gistirými í Betlehem.  Gríska orðið, sem oft er þýtt sem gistihús, er „kata-luma“.  Orðrétt merkir það „að leggjast niður“ og er það gjarnan notað um staði þar sem fólk sest niður til að borða eða sofa.  Orðið gæti þannig vísað til íverubústaðar fjölskyldu eða sérstaks gestaherbergis eins og var hjá hinum efnameiri fjölskyldum í Betlehem.  Eiginlegt gistihús eða hótel var ekki í Betlehem á þeim tíma, sem Jesús fæddist.

    Í guðspjallinu stendur skrifað:  „Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu“.  Þarna er ekki minnst á Jósef en hefði hann verið viðstaddur fæðinguna þá hefði hann lagt barnið í jötuna.  Jatan gefur til kynna að fæðingin hafi verið í fjárhúsi eða fjárhúshelli.  Mikið er af hellum í Betlehem og hafa þeir allt fram á þennan dag verið notaðir sem fjárhús.

    En var María þá ein í fjárhúshellinum?  Tæplega.  Yfirleitt voru eldri konur viðstaddar fæðingar til að aðstoða hina fæðandi móður.  Við köllum slíkar konur ljósmæður.  Og af einhverjum ástæðum er ljósmóðir Jesú aldrei sýnd á hinum hefðbundnu jólamyndum.  Hún er gleymda konan.  Er það ekki undarlegt að hendur konunnar, sem tók á móti mannkynsfrelsaranum, séu aldrei sýndar og sú manneskja sé aldrei sýnd á neinum jólakortum?  Samt eru fá störf jafn mikilvæg og störf ljósmóðurinnar, sem aðstoðar við það að taka á móti nýju lífi inn í þennan heim.

    Til þess að við getum haldið jól þá er fullt af fólki, sem vinnur.  Á sjálfri jólahátíðinni eru ljósmæður, hjúkrunarfólk og læknar starfandi á spítulum.  Á elliheimilum og öðrum stofnunum er starfsfólk, sem hugsar um þau, sem þar eru.  Og maturinn og gjafirnar, sem við njótum, eru gerðar af höndum fólks, sem við þekkjum ekki.  Á jólunum ættum við að þakka fyrir hendur allra þeirra, sem þjóna okkur og lífinu í heiminum.

    Á fyrri hluta annarrar aldar gerðu vísir menn sér grein fyrir því að eitthvað væri ósagt um fæðingu Jesú.  Þá var skrifað Bernskuguðspjall Jakobs og byggir það á frásögnum guðspjallamannanna Matteusar og Lúkasar ásamt viðbótum.  Og ein viðbótin er sú að nefna ljósmóðurina, sem tók á móti Jesú.  Hún er sögð heita Salóme, sem er sama nafn og amma mín á Ísafirði bar og margar kærar frænkur mínar bera.

    Þetta árið er ég vetrarmaður fyrir sunnan.  Og þá hvarflar hugurinn heim til Ísafjarðar.  Og í mínum huga þá er alltaf snjór á jólunum á Ísafirði.  Og það er messað klukkan sex í Hnífsdal og þar byrjar söfnuðurinn á að syngja:  Kirkjan ómar öll!  Þannig eru jólin í mínum huga.  Það eru jól með fjölskyldunni við matarborðið og jólatréð.  Vonandi átt þú slík jól í vændum, kæri lesandi.  Ég óska þér og þínum gleðilegra jóla.

Magnús Erlingsson,

prestur í Grafarvogi.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!