Ísafjarðarbær: fagnar áformum um atvinnuuppbyggingu

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fékk í heimsókn á mánudaginn fulltrúa fyrirtækja á Suðureyri og fleiri sem kynntu hugmyndir um laxasláturhús á Suðureyri.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri var inntur eftir því hvað fælist í þeirri ákvörðun.

Hann lagði áherslu á að í því fælist ekki afstaða sveitarfélagsins til staðsetningar sláturhússins.

„Íslensk verðbréf óskuðu eftir að kynna áform um byggingu sláturhúss á Suðureyri fyrir bæjarráði. Við fögnum að sjálfsögðu öllum áformum um atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu en hvað varðar staðsetningu þá er sveitarfélagið ekki að velja einn stað umfram annan. Staðsetning ræðst af mati fyrirtækjanna á heppilegustu staðsetningu út frá þeirra hagsmunum. Í þessu máli eru þetta ennþá einungis áform en endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir. Niðurstaða fundarins var að ÍV mun upplýsa bæjarstjóra um næstu skref, það er það sem felst í bókun bæjarráðs með að bæjarstjóri vinni málið áfram.“

DEILA