Hvalárvirkjun: orkuskortur gerbreytir stöðunni

Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður Vesturverks og framkvæmdastjóri þróunarsviðs HS Orku segir að staðan á orkumarkaði hafi gerbreyst á skömmum tíma. Nú sé fyrirsjáanlegur orkuskortur í landinu og það ýti á eftir rannsóknum á mögulegum virkjunarkostum eins og Hvalárvirkjun sem er í nýtingarflokki í Rammaáætlun.

Ásbjörn segir að unnið hafi verið að rannsóknum í sumar á Ófeigsfjarðarhálendinu og fengist hafi flóðamæling sem gefi tilefni til bjartsýni. Vesturverk vinnur að rannsóknum í samræmi við framvindu áforma Landsnets, en það mun sjá um kapallögun yfir heiðina frá virkjun að tengipunkti í Djúpinu. Vesturverk mun halda áfram rannsóknum á næsta ári.

Gengið var frá nýjum samningum við landeigendur í Ófeigsfirði um rannsóknir og nýtingu og gildir samningurinn til 2025. Rannsóknarleyfi frá Orkustofnun rann út í lok mars. Ekki var sótt um framlengingu á því þá þar sem viðræður stóðu yfir við landeigendur. En umsókn hefur nú verið lögð inn til Orkustofnunar og segir Ásbjörn að hún hafi sinn gang.

Ásbjörn Blöndal segir að Vesturverk þurfi ekki í raun rannsóknarleyfi frá Orkustofnun. Fyrirtækið hafi samninga við landeigendur um rannsóknir og nýtingu og það sé nóg heimild. Vesturverk gæti sótt um virkjunarleyfi til Orkustofnunar að rannsóknunum loknum og síðan sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar.

DEILA