Fuglamerkingar 2020

Árið 2020 voru alls merktir 11.109 fuglar af 79 tegundum hér á landi. Merkingamenn voru 47 talsins og mest var merkt af skógarþröstum og auðnutittlingum. Alls bárust 1.840 tilkynningar um endurheimtur og álestra af merkjum.

Árið 2020 var 100. ár fuglamerkinga á Íslandi. Afmælisárið markaðist þó af heimsfaraldri Covid-19 veirunnar en óvenju lítið var merkt af fuglum og engin voru hátíðarhöldin í tilefni stórafmælisins. Frá upphafi merkinga árið 1921 hafa samtals verið merktir 767.576 fuglar af 165 tegundum, þar af voru fjórar nýjar tegundir merktar á árinu, bláskotta, dulþröstur, elrigreipur og trjátittlingur.

Fjöldi merktra fugla var mun minni en undanfarin ár og ekki hafa verið merktir jafn fáir fuglar síðan 2012. Þær tegundir sem mest var merkt af voru: 2.798 skógarþrestir, 1.821 auðnutittlingur, 1.007 snjótittlingar, 772 kríur, 678 æðarfuglar (þar af 233 eldisungar), 376 helsingjar og 321 stari.

Af 1.840 tilkynningum um endurheimtur og álestra voru 1.753 um endurfundi íslenskra merkja. Þar af voru 1.329 endurveiddir á merkingastað, 311 í að minnsta kosti 1 km fjarlægð frá merkingastað innanlands, 113 merki fundust erlendis og 87 erlend merki fundust hérlendis.

Óvenjufáar langferðir voru meðal endurheimta ársins. Af 78 tilkynntum álestrum á 37 litmerkta íslenska sílamáfa spurðist til eins í Marokkó, í 3.555 km fjarlægð frá merkingarstað, en flestir aðrir eyddu vetrinum á hefðbundnum slóðum vítt og breitt um Íberíuskaga. Í Portúgal endurheimtust rauðbrystingur í 3.225 km fjarlægð frá merkingarstað og tildra í 2.682 km fjarlægð, stuttnefja merkt á Látrabjargi var skotin á Placenta Bay í Nýfundnalandi, Kanada (2.694 km), skógarþröstur á Spáni (2.632 km) og lóuþræll í Frakklandi (2.416 km).

DEILA