Flateyri: breytingar hjá Gömlu Bókabúðinni

Upphaf Gömlu Bókabúðarinnar á Flateyri má rekja aftur til ársins 1914 þegar Jens Eyjólfsson hóf verslunarrekstur á Flateyri. Fljótlega fékk verslunin nafnið Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson og heitir það enn í dag. Verslunin byrjaði sem nýlenduvöruverslun en þróaðist hægt og rólega í bókaverslun, sem seldi þó ávallt margt fleira, til að mynda sígarettur, sælgæti og vefnaðarvörur. 

Upp úr seinustu aldamótum breytist verslunin í fornbókasölu þar sem gamlar bækur voru seldar eftir vigt, en reksturinn gekk illa og stóð ekki undir sér. Undanfarin ár hefur vöruúrvalið verið aukið jafnt og þétt, gömlum bókum fækkað á kostnað nýrra bóka og vara. Árið 2021 var svo enn stærra skref stigið þegar verslunin opnaði vefverslun og fór að sérhæfa sig í hágæða vörum frá reyndum framleiðendum um allan heim.

Í dag leggur Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson áherslu á að selja bæði “Local & Global” vörur. Það eru vörur framleiddar á Vestfjörðum í bland við heimsþekktar hágæðavörur frá framleiðendum sem eru jafn gamlir eða eldri en Gamla Bókabúðin, sem er þó orðin 107 ára. “Við vitum hvað þarf til að reka verslun í meira en heila öld og treystum því framleiðendum sem hefur tekist að framleiða vörur sínar jafn lengi eða lengur” Segir Eyþór Jóvinsson verslunarstjóri sem er fjórða kynslóðin sem tekur við rekstrinum.

“Viðtökurnar hafa verið frábærar á árinu, það er greinilegt að fólk kann að meta vandaðar vörur sem endast áratugum saman. Fólk er að leita í hágæða handverk, góða og klasíska hönnun gerða úr fyrsta floks hráefnum.” Segir Eyþór. Í Gömlu Bókabúðinni má finna vörur frá framleiðendum eins og Trudon, elsta kertaframleiðanda heims frá árinu 1643, Herbin sem var stofnað árið 1670 og Crane sem hóf rekstur árið 1760. Svo er hægt að nefna yngri vörumerki eins og El Casco frá árinu 1920 og vinsælu emeleruðu Falcon búsáhöldin sem hafa verið í framleiðslu frá sama ári. 

Að sögn Eyþórs eru það þó fyrst og fremst blekpennarnir sem hafa slegið í gegn fyrir þessi jólin, enda fátt sem toppar fallegan blekpenna. “Það eru margar ástæður fyrir því að fá sér góðan blekpenna. Það er þægilegra að skrifa með blekpenna en öðrum pennum, þar sem það þarf minni þrýsting á þá, sem verður til þess að þú þreytist síður við skriftir. Góður blekpenni er fallegt skart, umhverfisvænn og endist áratugum saman. Þá skemmir það ekki fyrir að rithöndin batnar til muna með góðum blekpenna.” segir Eyþór og hlær.

Gamla Bókabúðin er bæði með umboðið fyrir þýsku Kaweco pennunum og bresku handgerðu Conway Stewart pennunum sem þykja einhverjir þeir flottustu sem eru framleiddir í heiminum í dag. Þá er verslunin einnig með til sölu Pelikan penna, sem margir þekkja og hafa verið í sölu í versluninni frá fyrri hluta seinustu aldar.


Verslunin sem er að öllu jöfnu aðalega opin á sumrin verður þó með aðventuopnun næstu helgi, bæði á laugardag og sunnudag frá kl. 11:00 – 16:00 og svo á Þorláksmessu frá 11:00 – 21:00 – Eins er alltaf hægt að skoða úrvalið og versla inn á www.GamlaBokabudin.is og fá heimsent eða sækja vörurnar.

DEILA