Fiskeldið er hluti af lausninni

Fiskeldi almennt og þar með talið eldi í sjó, skilur eftir sig grunnt kolefnisfótspor. Grynnra en þekkist í margri annarri matvælaframleiðslu. Gríðarleg tækifæri eru handan við hornið við enn frekari minnkun á kolefnisspori fiskeldisins.  Fiskeldið er því hluti af lausninni á þessu krefjandi verkefni.

Ingólfur Ásgeirsson flugstjóri og forsvarsmaður Icelandic wildlife fund, er þessu ósammála í grein sem birtist á bb.is í gær.

Aðstæður skoðaðar út frá íslenskum forsendum

Kjarni málsins er þessi: Kolefnisspor laxeldis í sjó er grunnt, enda fiskurinn alinn í sjó sem kallar á litla orkunotkun og hér á landi eru orkuskipti í fiskeldi þegar hafin. Fóðurnýting í laxeldi er  betri en í margri annarri matvælaframleiðslu og með því lægsta sem gerist í dýraframleiðslu, sem stuðlar að hinu sama. Fjölmargar erlendar og alþjóðlegar rannsóknir sýna þessa niðurstöðu og því hefði vel mátt láta gott heita. Fiskeldismenn vildu hins vegar fá raunsanna mynda af stöðunni hér heima og leituðu til virts íslensks fyrirtækis á sviði umhverfismála, Environice, með beiðni um að athugun væri gerð á kolefnisspori íslensks fiskeldis.

Íslenskar niðurstöður í samræmi við fjölda erlendra greininga

Þetta skiptir máli. Skilyrði hér á landi kunna að vera aðrar en í útöndum og því upplýsandi að fá mat á stöðu mála hér, miðað við íslenskar aðstæður og forsendur. Svo ágætt og það nú er að horfa út fyrir landsteinana, er mjög mikilvægt að styðjast við íslenskar forsendur og raunveruleika þegar þessi mál eru rædd.

Í hinni stórfróðlegu skýrslu Environice, sem hér hefur verið vitnað til, getur að líta mjög áhugaverða töflu sem dregur saman meðatöl fjölda erlendra greininga sem gerðar hafa verið á kolefnisspori einstakra matvara. Niðurstöðurnar eru mjög á hinn sama veg og við sáum í skýrslu Environice fyrir Ísland. Kolefnissporið af laxeldi í sjó er grunnt og t.d sambærilegt við sjálfbæra nýtingu á þorski hér við land.

Vottað fóður – ábyrg afstaða

Kolefnisspor í laxeldi á að lang  mestu leyti rætur sínar að rekja til fóðurframleiðslu. Þar er þess vegna stærsta verkið að vinna. Í sjávarútvegi hefur orðið sú jákvæða þróun að æ stærri hluti þess fisks sem er dreginn að landi fer til manneldis og þar hafa Íslendingar verið í fararbroddi. Sá hluti fiskafurða sem fer til annarra nota, svo sem fóðurgerðar, verður því minni. Nefna má sem dæmi að fyrir 30 árum voru 90% fóðursins fiskimjöl og lýsi. Nú er öldin allt önnur og því leita fóðurframleiðendur  annarra leiða.

En einnig þar þurfa menn að sýna fyllstu aðgát. Hinir stóru fóðurframleiðendur fá vöru sína vottaða af alþjóðlega viðurkenndum vottunaraðilum, eftir ströngum reglum, til þess að tryggja að umhverfisáhrifin verði sem allra minnst. Þetta á til að mynda við um notkun á soya í fiskeldisfóðri sem Ingólfur Ásgeirsson gerði að umtalsefni. Aðeins lítill hluti soyaframleiðslunnar í heiminum fer í fiskeldi, hvað þá laxeldi í sjókvíum. Lang mest fer í aðra fóðurframleiðslu. Engu að síður er krafist umhverfisvottunar af soyaframleiðslunni sem fer í fiskafóður. Það er ábyrg afstaða sem endurspeglar ríka umhverfisvitund, en sýnir líka hversu fráleitt það er að kalla laxeldið til ábyrgðar af því sem misfarist hefur vegna aukinnar sojaframleiðslu.

En betur má ef duga skal

Gríðarleg þróun er í fóðurgerð fyrir fiskeldi. Þar eru íslenskir vísindamenn virkir þátttakendur og kemur meðal annars fram í nýrri skýrslu um Stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi (maí 2021). Þar er nefnd til sögunnar ræktun á skordýrum (hermannaflugulirfum) og þörungum sem hafa mjög hátt hlutfall próteina og góðra fitusýra, og ræktun próteinríkra örvera.  Og enn má nefna stórt samevrópskt verkefni sem vísindamenn hjá MATÍS taka þátt í við að þróa innihaldsefni í fóður fyrir fisk, með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti.

Sumt er á þróunarstigi en annað komið lengra. En viðblasandi er að þetta mun skapa lausnir sem draga enn úr kolefnisspori fiskeldis í sjó, sem er þó afar grunnt fyrir.

29% minnkun kolefnisspors í hráefni til fóðurframleiðslu

Forstjóri Skretting, eins helsta fóðurframleiðanda í heimi, sagði nýverið að ekki ætti einvörðungu að horfa til nýrra lausna, heldur bæta núverandi framleiðsluaðferðir. Fyrirtækið hefur þróað aðferðir sem minnka kolefnissporið í hráefninu sem þeir nota við fóðurvinnsluna um 29 prósent frá árinu 2018. Þetta skiptir mjög miklu máli þar sem fóðrið veldur langmestu um kolefnislosun í fiskeldi.

Í þágu náttúrunnar, neytendanna og atvinnulífsins

Lykillinn að því að draga úr kolefnislosun er virk þátttaka atvinnulífsins. Kaupendur spyrja í vaxandi mæli um kolefnisspor vörunnar ekki síður en verð og atvinnulífið bregst við með því að gera enn betur til þess að svara kalli neytendanna. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir atvinnugrein eins og laxeldi sem í dag er með grunnt kolefnisfótspor og sem mun minnka  enn í nánustu framtíð.

Einar K. Guðfinnsson

Greinarhöfundur starfar að fiskeldismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!