Eyjólfur Ármannsson, alþm.: jómfrúarræða á Alþingi um frv. til fjárlaga

Virðulegi forseti. Stundum er sagt að steinarnir tali. Þannig hófst eitt sinn ræða til stuðnings forsetaframbjóðanda í kosningabaráttu fyrir kjör annars forseta lýðveldisins. Sá er þetta talar var kjörinn til hins háa Alþingis sem þingmaður fyrir Flokk fólksins í Norðvesturkjördæmi fyrir rúmum tveimur mánuðum. Eftir ítarlega rannsókn á framkvæmd kosninganna komst Alþingi að þeirri niðurstöðu að annmarkar á talningu atkvæða hefðu ekki haft áhrif úrslit kosninganna. Ætlun þess sem hér talar var að halda jómfrúrræðu fulla af hugljómun nýliðans um mikilvægi lýðræðis og ágæti íslensks samfélags. Spurningin er hins vegar hvort sá er hér talar sé að flytja jómfrúrræðu sína eða ekki eftir að hafa tekið til máls í andsvörum í umræðum um kosningar í Norðvesturkjördæmi og í dag um fjárlagafrumvarpið. Stundum er sagt að staðreyndir tali. Sú varð niðurstaðan þegar Alþingi staðfesti kjörbréf þingmanna í Norðvesturkjördæmi og þar á meðal þess sem hér talar. Sá er hóf ræðu sína með orðunum „stundum er sagt að steinarnir tali“, til stuðnings forsetaframbjóðandanum sem kosinn var annar forseti lýðveldisins, var afi minn, bóndi í Lokinhamradal við Arnarfjörð á Vestfjörðum. Forsetaframbjóðandinn var Ásgeir Ásgeirsson, einn farsælasti forseti lýðveldisins.

Stundum er sagt að tölurnar tali

Nú eru svo sannarlega aðrir tímar. Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað koma upp í hugann orðin: Stundum er sagt að tölurnar tali. Það má svo sannarlega segja um fjárlagafrumvarp það sem liggur fyrir í kvöld. Fjárlagafrumvarp hverrar ríkisstjórnar er mikilvægasta frumvarp hennar á hverju ári. Fjárlagafrumvarpið er eina frumvarpið sem ríkisstjórninni og fjármálaráðherra er skylt að leggja fram á hverju ári, enda er kveðið á um það í stjórnarskránni sjálfri. Hin nýja ríkisstjórn var ekki mynduð á grundvelli fjárlagafrumvarpsins. Grundvöllur nýrrar ríkisstjórnar er stjórnarsáttmálinn, sáttmáli ríkisstjórnarsamstarfs Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þetta plagg hér sem allir þingmenn ættu að lesa og kynna sér. Eftir að hafa lesið bæði fjárlagafrumvarpið og stjórnarsáttmálann skín eitt atriði í gegn og það er að lítið eða ekkert samspil er á milli stjórnarsáttmálans og fjárlagafrumvarpsins. Ef einstaklingur læsi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fjárlagafrumvarpið gæti hann ekki komist að þeirri niðurstöðu að sama ríkisstjórn stæði að báðum þessum skjölum. Engin tengsl eru á milli. Annað sem skín í gegn, líkt og bent var á í ræðu fyrr í dag, er að með fjárlagafrumvarpinu er ekkert að frétta, ekki neitt. Það er svo sannarlega rétt. Það er ekkert að frétta. Ríkisstjórnin er ekki fær um að sækja fram á þessum mikilvægu tímum og tímamótum. Þorið er ekkert og forystan engin. Fara á aftur í sama farið með von um að allt verði eins og það var fyrir Covid, sjálfan heimsfaraldurinn.

Við lifum á tímum heimsfaraldurs. Allir heimsfaraldrar í sögunni hafa markað mikilvæg tímamót. Síðasti heimsfaraldur, spænska veikin, gerði það svo sannarlega. Hún féll vissulega í sögunni í skuggann af fyrri heimsstyrjöldinni en hún hafði gríðarleg áhrif og markaði tímamót sem höfðu gríðarleg áhrif áratugina á eftir sem er einn mesti uppgangstími íslensks samfélags og í hinum vestræna heimi. Má minna á að í Bandaríkjunum er t.d. talað um „the roaring twenties“. Aðrir heimsfaraldrar gerðu það einnig og má minna á að tveir heimsfaraldrar höfðu áhrif á fall Rómaveldis, Jústiníanusarplágan og Antoníusarplágan. Sá heimsfaraldur sem við glímum við í dag mun svo sannarlega hafa áhrif, við bara gerum okkur ekki grein fyrir því enn þá. En áhrifin munu koma fram og m.a. í upplýsingabyltingunni.

Fjárlagafrumvarpið sem liggur fyrir ber þess merki að í því felst ekki sú forysta sem er svo brýnt að ríkisvaldið sýni á þessum mikilvægu tímum. Ekkert er að finna um að ríkið ætli að leiða þá miklu framsókn sem er svo mikilvæg fyrir íslenskt samfélag á tímum heimsfaraldurs og upplýsingabyltingar. Staða ríkissjóðs er betri en áætlað var fyrir ári þrátt fyrir Covid. Og hvað er gert? Jú, það á að fara til baka, líkt og ekkert hafi gerst, enginn heimsfaraldur hafi átt sér stað. Með fjárlagafrumvarpinu ætlar ríkið að sitja hjá á þessum tímum. Aðrir eiga að leiða. Önnur öfl í samfélaginu eiga að leiða en ekki ríkisstjórnin. Ríkisstjórn stöðnunar, ríkisstjórn gamla tímans, ríkisstjórn helmingaskipta, gamla B og D sem við ólumst upp með, nú með aðkomu VG — ríkisstjórn varðstöðunnar um kerfið er ríkisstjórn þessa fjárlagafrumvarps, það liggur ljóst fyrir.

Ef við skoðum það sem sagt er í stjórnarsáttmálanum þá eru þar sjö kaflar sem allir byrja á „Við ætlum“ og heita eftirfarandi: Við ætlum að vaxa til meiri velsældar, Við ætlum að skapa jarðveg tækifæra, Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang, Við ætlum að nýta tæknibreytingar til að skapa aukin lífsgæði, Við ætlum að fjárfesta í fólki, Við ætlum að stuðla að heilbrigðu samfélagi. Og síðast en ekki síst: Við ætlum að efla íslenska menningu og ferðaþjónustu. Já, ríkisstjórnin ætlar sér mikið. Hún ætlar sér eitthvað. Ef við skoðum kaflann Við ætlum að vaxa til meiri velsældar þá segir þar, með leyfi forseta:

„Vöxtur og velsæld er leiðarljós ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. […] og áhersla lögð á framúrskarandi umhverfi til verðmætasköpunar þar sem til verða ný, fjölbreytt og verðmæt störf.“

Ekki fjárfest í innviðum

Er eitthvað í fjárlagafrumvarpinu um að ríkisstjórnin ætli sér að fjárfesta í menntun íslensks vinnuafls þannig að það hafi hæfni og getu til að sinna hinum nýju fjölbreyttu og verðmætu störfum? Nei, fjárlagafrumvarpið ber það ekki með sér. Ríkisstjórnin virðist ætla að treysta á guð og lukkuna hvað þetta atriði varðar.

Kannski á að treysta á að hinar miklu náttúruauðlindir Íslands skapi þessi störf. Íslendingar voru heppnir eftir hrun þegar erlendir ferðamenn fóru að koma til landsins til að njóta einstakrar náttúrufegurðar þess. Þeir voru svo sannarlega heppnir. Það varð gengishrun eftir hrun, krónan hrundi um 100% og erlendir ferðamenn tóku að streyma til hins ódýra Íslands. Í fjárlagafrumvarpinu segir um atriði sem lúta að vexti og velsæld að heimild til framkvæmda í vegakerfinu lækki um 7 milljarða kr. Á meðan bíða nauðsynleg verkefni eins og Sundabraut. Framlög til rannsókna, þróunar og nýsköpunar í sjávarútvegi lækka um 700 millj. kr. vegna þess að kaup á nýju hafrannsóknaskipi hafa tafist. Í þessu fjárlagafrumvarpi er hvergi að finna heimild til kaupa á nýrri Breiðafjarðarferju og til stendur að selja gamla Herjólf í stað þess að hann verði nýttur til að leysa Baldur af. Þetta hamlar verulega atvinnuuppbyggingu á Vesturlandi og á Vestfjörðum. Fjárlagafrumvarpið stuðlar ekki að vexti og velsæld í þessum landshlutum. Einnig má benda á að lækka á framlög til uppbyggingar á ferðamannastöðum og ferðaþjónustan er ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar. Það á sem sagt ekkert að fjárfesta í uppbyggingu innviða, það á m.a.s. að lækka framlög í uppbyggingu innviða í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar þessa dagana.

Í kaflanum Við ætlum að skapa jarðveg tækifæra segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við viljum skapa íslensku menntakerfi svigrúm til að bregðast við þeim breytingum og áskorunum sem fram undan eru. Með því að hlúa að skapandi hugsun, þekkingu og vísindum og tryggja öllum tækifæri til þátttöku munum við auka samkeppnishæfni okkar í breyttum heimi […] Tæknibreytingar kalla á nýja færni fólks til að starfa í flóknu samfélagi … “

Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég les „til starfa í flóknu samfélagi“ er að benda á að íslenskt samfélag er ekki flókið samfélag á nokkurn hátt. Það búa 360.000 manns í íslensku samfélagi og það er ekki flókið. Ekkert er í fjárlagafrumvarpinu sem skapar íslensku menntakerfi svigrúm fyrir nýja tíma, hvað þá að ríkið ætli sér að setja fjármuni í að auka samkeppnishæfni íslensks samfélags í breyttum heimi. Svo sannarlega ekki. Í fjárlagafrumvarpinu segir hvað þetta atriði varðar að framlög fyrir framhaldsskólastig lækki um 0,6% milli ára. Framlög standa í stað fyrir vinnustaðanám og styrki. Háskólastigið þarf að uppfylla aðhaldskröfu upp á 300 millj. kr. og á sama tíma er verið að stofna sérstakt ráðuneyti fyrir háskóla, svokallað framtíðarráðuneyti. Allur þingheimur veit að það þarf að fjárfesta í framtíðinni. Það er þessi ríkisstjórn ekki að gera en stofnar samt heilt ráðuneyti undir framtíðina. Það er ekkert að finna í fjárlagafrumvarpinu sem gefur til kynna að svara eigi ákalli stúdenta um sanngjarnara námslánakerfi sem var eitt helsta baráttumál Flokks fólksins í kosningabaráttunni.

Í kaflanum Við ætlum að setja loftslagsmálin í forgang segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu […] Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni …“

Loftslagsmál að montmálaflokki til heimabrúks

Setja á 13 milljarða í þennan málaflokk og Ísland ætlar að vera best í heimi. Höfum við ekki heyrt þetta áður, Ísland best í heimi? Fyrir það fyrsta er stór hluti Íslands örfoka land. Á meðan svo er verður Ísland aldrei í fararbroddi í umhverfismálum í heiminum, aldrei nokkurn tímann. Í öðru lagi verður Ísland ekki í fremstu röð á neinu sviði fyrr en það tekur utan um þá sem verst standa, fátækt fólk í íslensku samfélagi. Þannig er það og þannig mun það alltaf verða.

Fyrir þá sem eru uppteknir af því að Ísland verði best í heimi, í fararbroddi í heiminum, í fremstu röð á einhverju sviði, hvort sem það er í umhverfismálum, loftslagsmálum eða á öðrum sviðum, þá er og verður Ísland alltaf dæmt eftir því hvernig íslenskt samfélag, hið norræna íslenska samfélag, sem vill kalla sig norrænt velferðarsamfélag, tekur á málefnum fátæks fólks, hvernig samfélagið tekur utan um og hlúir að öldruðum, öryrkjum og öllum þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu. Þannig verður íslenskt samfélag dæmt. Það getur komist í fremstu röð ef það tekur á þessum hópum, tekur á fátækt, útrýmir fátækt, ekki með því að vera með montmál eins og það að ætla að vera fremst í heimi á alþjóðavísu í loftslagsmálum. Það er grátlegt að horfa upp á það að ríkisstjórnin ætli að fara í gegnum þann mikilvæga málaflokki sem loftslagsmálin eru og gera þau að einhverjum montmálaflokki og þá til heimabrúks því að ekki verður hlustað á þennan söng erlendis. Að ætla sér að segja Íslendingum að þeir séu bestir í heimi í loftslagsmálum þegar staða öryrkja aldraðra er með þeim hætti sem raun ber vitni er ekki hægt að kalla annað en hræsni.

Í kaflanum Við ætlum að nýta tæknibreytingar til að skapa aukin lífsgæði segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ísland er nýsköpunarland með öfluga tæknilega innviði […] Við styrkjum samkeppnisstöðu Íslands, aukum velsæld og eflum samfélagið til að mæta örum tæknibreytingum …“

Er Ísland sérstakt nýsköpunarland með auðlindahagkerfið sitt? Nei, það er það ekki. Við búum í auðlindahagkerfi og hér er engin sérstök nýsköpun. Ef maður horfir til upplýsingabyltingarinnar í hinum vestræna heimi er það bara ekki. Staðreyndirnar tala sínu máli. Við kaupum jú Iphone og alla þessi tækni en það er enginn hugbúnaðariðnaður sem kalla mætti. Ætlar ríkisstjórnin að setja fjármuni í að auka nýsköpun eða styrkja samkeppnisstöðu Íslands? Nei, ekkert sérstaklega. Í fjárlagafrumvarpinu eru framlög til nýsköpunar aukin um 1,5 milljarða kr. Það eru ekki háar fjárhæðir í stóra samhengi fjárlaganna eða samfélagsins.

Enn er verið að skattleggja fátækt fólk

Í kaflanum Við ætlum að fjárfesta í fólki segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Einstaklingurinn er hjartað í kerfinu …“ — en hjartnæmt. Og að stuðla skuli að því að fólk nýti hæfileika sína og krafta. Í kaflanum er fjallað um aldraða og öryrkja. Þar segir að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu. „Til endurskoðunar“ og „á kjörtímabilinu“ eru hér lykilorð. Að taka eitthvað til endurskoðunar á kjörtímabilinu kostar ekki neitt og það getur tekið fjögur ár.

Sorglegt er að sjá í fjárlagafrumvarpinu að ekki sé farið í raunverulegar aðgerðir fyrir öryrkja og eldri borgara, fyrir fátækasta fólkið í landinu og þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu. Enn er verið að skattleggja fátækt fólk. Skerðingarnar eru enn til staðar. Ekkert er gert fyrir öryrkja þegar kemur að skerðingum bóta vegna mögulegra tekna, hvort sem það eru atvinnutekjur eða aðrar tekjur. Ekkert er gert til að heimila öllum öryrkjum sem treysta sér til þess að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga og án þess að örorka þeirra sé endurmetin. Í fjárlagafrumvarpinu er ekkert gert til að hvetja einstaklinga sem búa við örorku til sjálfsfbjargar heldur er þeim refsað sem það reyna og vilja og geta bjargað sér að einhverju leyti sjálfir. Að hugsa sér að Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur sem stærir sig af að vera flokkur einstaklingsframtaks, flokkur sem er óþreytandi að segja við þjóðina að hann sé sá flokkur sem stuðli að frjálsu framtaki einstaklingsins og að hann eigi að fá að njóta sín, skuli standa að fjárlagafrumvarpi þar sem ekkert er gert til að stuðla að sjálfsbjörg þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu vegna örorku sinnar. Það er með hreinum ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn og þessi ríkisstjórn skuli ekki stuðla að því að fólk leiti sér sjálfsbjargar, að það fái að standa á eigin fótum. Það er einstaklingsfrelsi. Það er líka einstaklingsfrelsi fyrir öryrkja eða eldra fólk að fá að geta bjargað sér. Það er nákvæmlega ekkert gert.

Ekki bara það: Þeim einstaklingum sem búa við örorku og afla sér tekna er refsað. Þessi ríkisstjórn hvetur þá til að vera heima í einangrun og vera ekki virkir þátttakendur í samfélaginu. Hækkun elli- og örorkulífeyris á að halda í við verðbólgu og ekki meira. Um það má lesa á bls. 134 í fjárlagafrumvarpinu. Hluti hækkunar örorkulífeyris í ár, 0,8%, er til kominn vegna þess að bætur héldu ekki í við verðbólgu. Svo er miðað við áætlaðar meðaltaxtahækkanir á næsta ári, 3,8%. Það er ekkert til að vega upp á móti tugprósenta uppsafnaðri kjaragliðnun sem hefur vaxið allt frá hruni, ár eftir ár. Og það eru 13 ár frá hruni. Þegar maður er á Íslandi virðist sem hrunið hafi bara verið í fyrra eða fyrir tveimur árum. Hrunið er svo nálægt okkur í tíma. Það eru sárafáir að hugsa um 2008 en þegar maður kemur til Íslands er eins og það hafi bara gerst í gær. Við erum enn að eiga við þau ósköp sem gerðust í október árið 2008, bæði pólitískt, efnahagslega og félagslega. Skerðingar vegna lífeyristekna eru þær sömu og áður, bæði hvað varðar ellilífeyrisþega og öryrkja, þannig að ellilífeyrisþegar fá ekki notið lífeyrissparnaðar síns að fullu. Skerðingarhlutfall lífeyris er óviðunandi og verður að lækka. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að hækkun frítekjumarks ellilífeyris kosti 540 millj. kr. Það eru ekki háar fjárhæðir í fjárlagafrumvarpinu.

Svo að ég víki mér að næstu köflum í stjórnarsáttmálanum er óþarfi að fjalla um kaflana Við ætlum að stuðla að heilbrigðu samfélagi og Við ætlum að efla íslenska menningu og ferðaþjónustu. Þar er almennt spjall um íslenskt samfélag. Þar koma ekki fram eftirfarandi frasar: Ísland á að vera í fararbroddi á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í heiminum. Það er heldur ekki gert í kaflanum Við ætlum að fjárfesta í fólki. Metnaðurinn nær ekki til fólksins í landinu, hann nær bara til loftslagsmála, ekki fólksins í landinu og alveg örugglega ekki til öryrkja og eldra fólks. Við erum komin aftur heim til Íslands, heim til litla gamla Íslands þar sem allir þekkja umræðuna svo vel.

Jú, í kaflanum Við ætlum að stuðla að heilbrigðu samfélagi segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við horfum á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi.“

Í fjárlagafrumvarpinu er þetta samhengi svo vítt að ekki er sjáanlegt hvað gera eigi til að efla heilbrigðiskerfið í íslensku samfélagi, einu ríkasta samfélagi heims, í sjötta sæti hvað varðar ríkidæmi samkvæmt mælikvörðum OECD, klúbbi ríkra þjóða í heiminum. Ekkert er gert til að Ísland geti rekið eitt hátæknisjúkrahús þannig að sómi sé að fyrir þjóðina og Íslendingar geti verið stoltir af. Forgangsröðunin er önnur í fjárlagafrumvarpinu.

Hvað varðar heilbrigðiskerfið sérstaklega er ekkert tekið á þeim vanda sem starfsfólk þar hefur ítrekað bent á á undanförnum mánuðum. Ráðast þarf strax í úrbætur þar. Enn er inni 0,5% aðhaldskrafa á Landspítalann. Spítalinn og starfsfólk hans er undir miklu álagi og því óskynsamlegt að krefjast aðhalds. Ekki er að sjá að ráðast eigi í frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila á næsta ári umfram eldri áætlanir. Það er mikið áhyggjuefni því að íslenska þjóðin er að eldast. Það er klárt mál að umræðan um ástandið á Landspítala – háskólasjúkrahúsi mun áfram verða á forsíðum blaðanna og vera aðalmál fjölmiðla næsta árið.

Íslenska heilbrigðiskerfið er undirfjármagnað. Það er staðreynd. Íslendingar verja í dag 7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál, langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Þjóðin vill bæta úr. Það sýndi undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar árið 2016 þar sem 85.000 manns kröfðust þess að 11% af vergri landsframleiðslu færi í heilbrigðismál sem er svipað og á Norðurlöndunum. Við höfum ekki enn náð 11% og erum langt frá því. Í fjárlagafrumvarpinu er ekkert sem endurspeglar þennan skýra vilja þjóðarinnar. Heilbrigðismálin eru gríðarlega mikilvæg. Á Covid-tímum hefur mikilvægi þeirra komið vel í ljós. Efla þarf héraðssjúkrahúsin og heilsugæslu á landsbyggðinni. Sem sjálfstæð þjóð verða Íslendingar að geta rekið eitt hátæknisjúkrahús með reisn. Undirfjármögnun síðustu ára hefur komið í veg fyrir það. Heilbrigðiskerfið er einn af hornsteinum nútímasamfélags og mikilvægt að þar sé staðið betur að málum. Þetta þarf að koma fram í fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra en svo er einfaldlega ekki.

Varðandi tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins eru það mikil vonbrigði að bankaskatturinn og veiðigjöldin séu að skila svo litlu. Það er tap upp á milljarða sem hefði mátt verja til að afnema tekjuskerðingu örorkubóta. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru 540 millj. kr. settar í það að tvöfalda frítekjumark aldraðra úr 100.000 kr. á mánuði í um 200.000 kr. Það eru ekki háar fjárhæðir í stóra samhengi fjárlagafrumvarpsins. Auðveldlega hefði mátt gera það sama fyrir öryrkja, þ.e. að öryrkjar fengju að afla sér tekna með atvinnuþátttöku eða tilraun til atvinnuþátttöku án skerðingar á örorkubótum. Svíar hafa farið þessa leið og hefur það haft góð áhrif og fækkað fólki á örorkubótum eftir tveggja ára atvinnuþátttöku án skerðingar vegna tekna.

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegt að í íslensku samfélagi sé fátæktarumræða. Ísland er eitt ríkasta land í heimi og samt er umræða um fátækt mál málanna hér. Fyrir einstakling sem hefur búið í Skandinavíu að mestu frá árinu 2011 kemur hin mikla umræða um fátækt alltaf jafn mikið á óvart. Ég hef ekki heyrt svipaða umræðu í Skandinavíu og alveg örugglega ekki í Noregi. Ísland vill láta líta á sig sem norrænt velferðarsamfélag. Svo er ekki á meðan fátækt er jafn algeng og raun ber vitni hér á landi. Það er bara ekki þannig. Við erum ekki norrænt velferðarsamfélag þegar svo er. Þessi fjárlög taka ekki á þessu mikla og alvarlega samfélagsmeini. Frumvarpið er ekki með neina stefnu í ríkisfjármálum sem er svo mikilvægt á þessum tímamótum í íslensku samfélagi, á tímum heimsfaraldurs. Það virðist byggja á því að Ísland sé ríkt land, sem það svo sannarlega er, vegna þess að ákveðnir hópar í samfélaginu búi við fátækt, að það sé forsenda ríkidæmisins. Þetta er röng nálgun á allan hátt. Enginn í íslensku samfélagi er ríkur af því að hópar í samfélaginu búa við fátækt eða búa við hina grimmilegu skerðingu bóta úr sameiginlegum sjóðum vegna eigin tekna. Samfélagið verður ríkara ef allir í samfélaginu búa við mannsæmandi kjör og allir geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Á því byggir hið norræna velferðarmódel. Það er mikilvægt atriði. Allir eru virkir; öryrkjar og eldri borgarar. Fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp er ekki fjárlagafrumvarp norræns velferðarsamfélags. Staðreyndir fjárlagafrumvarpsins tala sínu máli um það. Tölurnar tala sínu máli.

DEILA