Dýravelferð um áramót

Áramótin nálgast óðfluga með öllum sínum hefðum og gleðskap og þá er nauðsynlegt að minna sérstaklega á dýrin, sem eru stór hluti af okkar samfélagi. Ótal dæmi eru um ofsahræðslu og slys á dýrum í kringum áramótin og því vill Matvælastofnun biðja fólk um að taka tillit til þeirra og einskorða notkun á flugeldum og öðru sem veldur skyndilegum hávaða, blossum og reyk, við gamlárskvöld og þrettándakvöld. Dýraeigendur eru líka hvattir til að kynna sér hvað þeir geta gert til að draga úr vanlíðan dýranna og slysahættu.

Það er gamall siður að skjóta upp flugeldum um áramótin og er það gott og blessað. Margur styrkir gott málefni eða hjálparstarf og gleður sjálfan sig og aðra í leiðinni með ljósadýrðinni. Hins vegar gleður ljósadýrðin og hávaðinn sem flugeldum fylgir því miður sjaldnast ferfætlingana, og eiga margir þeirra það til að verða skelfingu lostnir. Dýraeigendur, sérstaklega þeir sem eiga hunda, ketti og hesta nálægt þéttbýli, kannast vel við þann óróa og angist sem dýr þeirra ganga í gegnum á þessum tíma vegna látanna sem fylgir þessum flugeldaskotum. Dæmi eru um að hundar sleppi og hlaupi fyrir bíla eða á fjöll. Dýr í úthaga eins og nautgripir og hestar eru sérlega í hættu. Mýmörg dæmi eru um að hestar hafi fælst við flugelda, brotist út úr girðingum og hlaupið til fjalla eða í veg fyrir bílaumferð, og valdið slysum á sjálfum sér og öðrum. Hestar eru mikil hópdýr svo ef einn hleypur af stað fylgir gjarna allur hópurinn. Einnig eru margir komnir með hesta á hús á þessum tíma og farnir að stunda útreiðar. Alls ekki ætti að nota skotelda í nálægð við hesthúsahverfi á meðan bjart er. Óþarfi er að lýsa því hvað getur gerst ef flugeldum er skotið upp rétt hjá eða yfir fólki við útreiðar.

Það er því einlæg ósk Matvælastofnunar að almenningur sýni þá tillitssemi við dýrin og eigendur þeirra að stunda eingöngu flugeldaskot, hvellhettusprengingar og notkun á ýlum á gamlárskvöld og/eða á þrettándanum.

DEILA