313 greindust með Covid í gær – Hertar aðgerðir

Alls greindust 286 með Covid-19 veiruna innanlands í gær og 27 greindust á landamærunum. Aldrei hafa fleiri verið greindir hér á landi á einum degi.

Tólf liggja á Landspítalanum vegna veirunnar og er meðalaldur þeirra 58 ár. Tveir eru á gjörgæslu, annar í öndunarvél.

Á Vestfjörðum eru nú 22 í einangrun og 33 í sóttkví og hefur því ekki fjölgað í einangrun þar.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að herða sóttvarnaaðgerðir fyrir jól til að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta kynnti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi. Tuttugu mega nú koma saman í stað 50 áður og 200 mega koma saman á stærri viðburðum í stað 500.

Ekki verður farið að tillögum sóttvarnalæknis varðandi skólana en hann hafði lagt til að grunnskólar, framhaldsskólar og háskólarnir yrðu lokaðir til 10. janúar, þeir haldi sínu striki en svo ræði skólamálaráðherrarnir framhaldið.

DEILA